Mynd: epa

Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.
Bandaríska sendiráðið í Ísrael verður áfram í Jerúsalem
20.01.2021 - 00:48
Erlent · Asía · Bandaríkin · Bandaríkjaforseti · Donald Trump · Ísrael · Joe Biden · Norður Ameríka · Stjórnmál
Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, hyggst hvorki ógilda þá ákvörðu Donalds Trumps, að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels né færa sendiráð Bandaríkjanna aftur frá Jerúsalem til Tel Aviv, þar sem það var til skamms tíma eins og sendiráð flestra annarra ríkja í Ísrael. Antony Blinken, utanríkisráðherraefni Bidens, staðfesti þetta á þriðjudag.
Verðandi ráðherrar í Bandaríkjastjórn þurfa jafnan að sitja fyrir svörum hjá staðfestingarnefnd þingsins, sem síðan staðfestir eða hafnar skipun þeirra í embætti.
Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Repúblikana og ákafur stuðningsmaður Trumps síðustu misseri, á sæti í nefndinni. Hann spurði Blinken, sem kom fyrir nefndina í gær, þriðjudag, hvort Bandaríkin myndu halda sig við stefnu Trumps varðandi viðurkenningu Jerúsalems sem höfuðborgar Ísraelsríkis og staðsetningu sendiráðsins þar. Blinken svaraði báðum spurningum játandi, án þess að hika.