Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Viðskiptabann á rússneskt skip vegna Nord Stream 2

19.01.2021 - 04:49
epa08661754 Pipes for the construction of the German-Russian gas pipeline project Nord Stream 2 are piled up at Mukran port in Sassnitz, Germany, 11 September 2020. Opposition parties have called on German Chancellor Merkel to abandon the joint German-Russian pipeline project Nord Stream 2 in response to the alleged poisoning of Kreml critic Navalny.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA
Bandaríkjastjórn ætlar að leggja viðskiptabann á rússneska skipið Fortuna. Skipið leggur lokahönd á lagningu Nord Stream 2 gasleiðsluna frá Rússlandi til Þýskalands. Þýskir embættismenn staðfestu þetta við AFP fréttastofuna í gær.

Þýska dagblaðið Handelsblatt greindi fyrst frá banninu, og segir Bandaríkjastjórn gera það opinbert í dag. Talsmaður þýsku stjórnarinnar staðfesti við AFP fréttastofuna að viðskiptabannið varði rússneskt skip, og Þjóðverjum þyki ákvörðun Bandaríkjastjórnar miður.

Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, undirritaði frumvarp árið 2019 um viðskiptarefsingar gegn fyrirtækjum sem taka þátt í lagningu Nord Stream 2. Þeirra á meðal eru frystingar eigna í Bandaríkjunum og bann við að fá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Samkvæmt Handelsblatt greindi Bandaríkjastjórn Þjóðverjum og fleiri Evrópuríkjum frá því að viðskiptabann verði lagt á skipið Fortuna, sem er í eigu rússneska fyrirtækisins KVT-RUS.