Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Uppgreiðslugjald lána beint til Hæstaréttar

19.01.2021 - 22:37
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - rúv
Mál ríkisins vegna uppgreiðslugjalds Íbúðalánasjóðs verður tekið fyrir hjá Hæstarétti og fær flýtimeðferð. Farið verður framhjá Landsrétti en ríkið áfrýjaði dómi Héraðsdóms í desember.

Mbl.is greinir frá þessu í kvöld og hefur eftir aðstoðarmanni Bjarna Benediktssonar að samþykkt hafi verið að taka málið fyrir hjá Hæstarétti. Bjarni sagði á Alþingi eftir að niðurstaða héraðsdóms lá fyrir að hann vildi fara með málið beint til Hæstaréttar til að stytta málsmeðferðartímann.

Fjölskipaður héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í byrjun desember að Íbúðalánasjóði hefði verið óheimilt að krefjast þóknunar fyrir uppgreiðslu lána. Þórir Skarphéðinsson lögmaður, sem rak málið fyrir hönd hjóna sem voru rukkuð um tæpar fjórar milljónir þegar þau ætluðu að greiða upp sitt lán, telur að málið hafi fordæmisgildi fyrir aðra lánþega sjóðsins.

Í heild tóku 14 þúsund manns lán hjá Íbúðalánasjóði þar sem uppgreiðslugjalds var krafist en hætt var að veita lán með þessum skilyrðum árið 2013. Þúsundir hafa þó þegar greitt þetta gjald og því gæti sjóðurinn þurft að greiða allt að tuttugu milljarða til baka.