Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Trump er afspyrnulélegur leiðtogi“

Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði.
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Covid nítján faraldurinn leiddi í ljós hversu vondur leiðtogi Donald Trump er, segir Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði. Hann hafi beitt einangrunarstefnu sem var í andstöðu við stefnu Repúblíkanaflokksins.

Trump fékk sína hveitibrauðsdaga í embætti. Snemma boðaði hann harða innflytjendastefnu, fyrst með ferðabanni á Mið-Austurlönd og síðan til  að stöðva komu flóttafólks frá Mið-Ameríku með múrnum fræga á landamærum Mexíkó. Hann líkti meðal annars stórum hópum slíkra flóttamanna við innrás. 

Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði segir að Trump hafi bæði beitt hefðbundinni stefnu Repúblíkana, sem felist meðal annars í lágum sköttum og frjálsum markaði, en líka einangrunarstefnu sem ekki er í samræmi við stefnu flokksins. „Viðskiptalífið innan flokksins hefur verið fylgjandi tiltölulega frjálsu flæði innflytjenda því það er þeim mikilvægt til að fá ódýrara vinnuafl, en Trump snýr þessu öllu á haus.“ Stefnan hafi einnig falið í sér að draga Bandaríkin úr alþjóðasamstarfi. 

Fylgið við Trump minnkaði síðsumars 2017 þegar Trump vildi ekki fordæma hvíta þjóðernissinna í kjölfar árásar á hóp sem var að mótmæla þeim, nema með því að benda á að það væri líka vont fólk hinum megin. Fyrir þetta var hann harðlega gagnrýndur.

Þá þótti Trump stundum full hliðhollur Rússum, sem leyniþjónustan telur að hafi skipt sér af síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum. Hann sagði meðal annars eftir fund með Vladimír Pútín að hann sæi ekki af hverju Rússar hefðu átt að hafa áhrif á kosningarnar, þó að hann hefði reyndar leiðrétt sig eftir á. Við sama tækifæri hafði hann orð á því að Pútín hefði neitað allri aðkomu með öllu. „Það var mjög oft sem Trump virtist vera mun harðari gagnvart bandalagsríkjunum heldur en hinum fyrrverandi andstæðingum,“ segir Guðmundur.

Fyrir ári naut Trump meira fylgis en nokkru sinni, þrátt fyrir að hafa verið ákærður fyrir embættisafglöp enda efnahagurinn afar sterkur. En þá kom heimsfaraldur, sem Trump sagði reyndar óspart að myndi hverfa. „Þegar reynir á virkilega kemur í ljós hver er góður leiðtogi og hver er það ekki. Og það kemur skýrt í ljós að Trump er afspyrnulélegur leiðtogi, vondur leiðtogi. Hann neitar að takast á við þennan vanda sem þessi faraldur er þannig að það fer allt úr böndunum,“ sagði Guðmundur.

Þetta hafi líka komið í ljós eftir forsetakosningarnar, þegar hann hafi aðeins hugsað um að rengja úrslit þeirra. Guðmundur segir að þó að stuðningurinn hafi minnkað eftir árásina á þinghúsið hafi Trump enn töluverð ítök í Republíkanaflokknum vegna persónulegs fylgis sem hann nýtur.  „Það verður að koma í ljós hversu sterk rödd Trumps verður þegar það er búið að slökkva á Twitter, hvernig honum tekst að viðhalda tökum sínum.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV