
Trump afléttir ferðabanni – Biden segir nei
Talskona verðandi forseta, Joe Biden, segir komandi stjórn ekki ætla að aflétta ferðahömlum strax. Samkvæmt ráðgjöfum Bidens í heilbrigðismálum sé ekki tímabært að aflétta þeim svo snemma. Fyrst þurfi að styrkja smitvarnir í millilandaferðum til þess að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu COVID-19.
On the advice of our medical team, the Administration does not intend to lift these restrictions on 1/26. In fact, we plan to strengthen public health measures around international travel in order to further mitigate the spread of COVID-19.
— Jen Psaki (@jrpsaki) January 19, 2021
Miðstöð sjúkdómavarna í Bandaríkjunum, CDC, tilkynnti í síðustu viku að allir komufarþegar til Bandaríkjanna verði að hafa verið greindir neikvæðir við COVID-19 innan þriggja daga fyrir brottför til landsins. Þá mælir stofnunin með því að ferðamenn fari í sýnatöku þremur til fimm dögum eftir komuna til Bandaríkjanna, og haldi sig í sóttkví í sjö daga hið minnsta.
AFP fréttastofan segir smitsjúkdómalækna óttast að ný og meira smitandi afbrigði kórónuveirunnar séu þegar á kreiki í Bandaríkjunum. Hvergi í heiminum hafa fleiri greinst smitaðir en í Bandaríkjunum, 24 milljónir, og nærri 400 þúsund eru látnir af völdum sjúkdómsins.