Lítill drengur sem lenti í umferðarslysi í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi á laugardaginn er látinn. Hann lést á Landspítala í dag. Hann hét Mikolaj Majewski og var á öðru ári. Móðir hans lést á laugardagskvöld.
Pólska sendiráðið greindi frá andlátinu síðdegis í dag.
Fjölskyldan var á leið heim til Flateyrar eftir að hafa dvalið í Póllandi yfir jólin. Bíllinn fór út af veginum í mikilli hálku og endaði úti í sjó. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunar voru kallaðar til og Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð virkjuð.
Vegfarendur sem komu fyrstir að slysinu þurftu að aka áfram þar til símasamband náðist til þess að hringja á Neyðarlínuna. Hálka og krapi töfðu fyrir björgunarliði á leið á slysstað.
Þrennt var í bílnum, Mikolaj og foreldrar hans. Móðirin, sem var á þrítugsaldri, lést á gjörgæsludeild Landspítala á laugardagskvöld. Hún hét Kamila Majewska.