
Írar og Íslendingar í svipuðum takti fram að aðventu
Thor og félagar hafa fylgst með faraldrinum og Covid-tölum í bráðum eitt ár. Hann segir að í ljós hafi komið að faraldurinn þróist stundum á svipaðan hátt hér og í löndunum í kring og stundum ekki. Írland hafi þó yfirleitt legið í svipuðum takti og Ísland fyrir utan það að þeir hafi misst miklu fleiri úr pestinni en Íslendingar. Greiningatölur landanna miðað við höfðatölu hafi fylgst mjög vel að - þangað til um aðventuna.
„Þeir slaka á um aðventuna meira. Þeir opna veitingahúsin og það verður allt miklu hressara hjá þeim en þá sjáum við líka hvernig bylgjan þeirra hefur rokið upp og staðan þar, eða var það fyrir viku eða tveimur, með því versta í kringum okkur á meðan hjá okkur hélst þetta niðri áfram sem var auðvitað mjög ánægjulegt.“
Thor segir að Íslendingum hafi gengið vel í baráttunni við pestina en lærdómurinn af faraldrinum ekki allur kominn fram. „Almenningur hér hefur tekið virkilega góðan þátt í þessu. Hér er grímunotkun bara almenn. Þetta er ekkert vesen og margt svona sem er bara jákvætt og ég vona að við getum bara haldið því áfram og klárað þetta.“