Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Banaslysið mikið áfall fyrir samfélagið

19.01.2021 - 22:24
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Banaslysið í Ísafjarðardjúpi um helgina er mikið áfall fyrir samfélagið á Vestfjörðum. Þetta segir vinkona fjölskyldunnar sem lenti í slysinu. Fjölskyldan var á leið heim til Flateyrar á laugardaginn eftir að hafa dvalið í Póllandi yfir jólin. Bíllinn fór út af veginum í mikilli hálku og endaði úti í sjó.

Þrennt var í bílnum. Mikolaj Majewski, sem var á öðru ári, lést á Landspítala í dag, en móðir hans Kamila Majewska lést á laugardagskvöld. Tomasz faðir hans er enn á sjúkrahúsi. Janina Magdalena Kryszewska býr á Ísafirði og hefur þekkt fjölskylduna í nokkur ár. Hún kynntist Tomaszi þegar hún vann með bróður hans í frystihúsi.

„Þessi fjölskylda var æðisleg. Ég man eftir því þegar Tomasz og Kamila kynntust, hvað hann var hamingjusamur og þau hamingjusöm saman. Þau voru glöð. Hún var góð og ljúf kona og þetta barn var besta sem kom fyrir þau,“ segir Janina.

Janina segir það hafa verið mjög erfitt að fá fréttir af slysinu. Eiginmaður hennar er í björgunarsveit og var sendur á vettvang. „Ég frétti af þessu í gegnum prestinn okkar. Hann sagði að það væri lítil fjölskylda sem lenti í slysi sem býr á Flateyri og var með barn sem er eins árs. Svo ég tengdi bara strax að þetta voru Kamila og Tomasz,“ segir hún.

Samfélagið fyrir vestan er samheldið að sögn Janinu og það hefur haft áhrif á viðbrögðin. „Þetta er mjög stórt áfall fyrir okkur í samfélaginu. Við erum öll í mjög miklu sjokki. Ég fæ rosalega mörg skilaboð varðandi þetta og við erum að reyna að hjálpa þeim að fara út úr þessu áfalli,“ segir hún.

Söfnun er hafin fyrir Tomasz og ættingja hans bæði í Póllandi og hérlendis. Söfnunarféð verður meðal annars notað til að standa straum af útfarakostnaði, stuðningi við fjölskylduna og ferðum milli landanna.