Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

2020 var illviðrasamt, blautt og snjóþungt

19.01.2021 - 23:04
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Veðurstofan birti í dag yfirlit yfir tíðarfar á árinu 2020. Árið var ekki aðeins stormasamt vegna heimsfaraldurs heldur lék veðrið landsmenn grátt með tíðum illviðrum. Úrkoma á Akureyri hefur ekki verið meiri frá upphafi mælinga. Þá féll einnig úrkomumet á Seyðisfirði með skelfilegum afleiðingum.

Í ítarlegu yfirliti Veðurstofu Íslands kemur fram að meðalvindhraði hafi verið óvenju hár og óveðursdagar einnig óvenju margir. Meðalhiti ársins var yfir meðallagi seinustu 60 ára en undir meðaltali seinustu 10 ára. Heldur hlýrra var norðan og austanlands en í meðalári, en fremur svalara á suður og vesturhluta landsins. 

„Tíð var óhagstæð og illviðrasöm í byrjun árs og að mestu leyti fram að páskum. Meðalvindhraði var meiri en vant er og loftþrýstingur lægri. Illviðri voru mjög tíð og miklar samgöngutruflanir voru vegna óveðurs og mikil fannfergis. Snjóþungt var norðan- og austanlands og á Vestfjörðum. Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri og eitt í Súgandafirði þ. 14. janúar. Mikið austanveður gekk yfir landið þ. 14. febrúar og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Maí og júní voru hagstæðir. En júlí var fremur kaldur miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Framan af ágúst rigndi mjög um landið sunnan- og vestanvert en hlý og hagstæð tíð var þá norðaustanlands. September var fremur svalur en október hlýr og hægviðrasamur. Mjög snjólétt var á landinu í nóvember og desember miðað við árstíma. Illviðri voru tíð en samgöngur röskuðust þó lítið vegna snjóleysis. Óvenjulega mikil úrkoma féll í desember á norðan- og austanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Aftakaúrkoma var á Austfjörðum dagana 14. til 18. desember. Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði, sú stærsta þann 18. desember,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Rúmlega 54 gráðu munur á hæsta og lægsta hita ársins

Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig sem er 0,7 stigum ofan við meðaltal seinustu 60 ára en 0,4 stigum lægra en meðaltal seinustu 10 ára. Á landsvísu var hitinn 0,9 stigum ofan við meðaltal seinstu 60 ára en 0,3 stigum undir meðaltali seinustu 10 ára.

Hæsti hiti ársins mældist í Neskaupstað þann 13. ágúst, en þá mældist hitinn 26,3 stig. Mesta frost ársins mældist -28,3 stig á Setri 7. mars. Mesta frost ársins í byggð mældist -28,1 stig við Mývatn þann 13. febrúar.

Mesta 5 daga úrkoma sem mælst hefur

Óvenjulega mikil úrkoma féll í desember á norðan- og austanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í þeim almanaksmánuði. Aftakaúrkoma var á Austfjörðum dagana 14. til 18. desember. Mest var úrkoman á Seyðisfirði þar sem heildarúrkoma þessara 5 daga, mældist 577,5 mm. Það er mesta úrkoma sem mælst hefur á fimm dögum á Íslandi.

 Á Akureyri mældist ársúrkoman 762,1 mm, 47 prósent umfram meðallag áranna 1971 til 2000, en 21 prósent yfir meðallagi síðustu tíu ára. Árið er það úrkomumesta þar frá upphafi mælinga, árið 1928. Þar munar mest um mjög úrkomusaman desembermánuð þegar úrkoman mældist fjórfalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur á Akureyri í einum mánuði frá upphafi mælinga.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 178,2 mm á Seyðisfirði þann 15. desember. Á mannaðri stöð mældist mesta sólarhringsúrkoman 159,5 mm á Kálfafelli 10. ágúst.

Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 25,2 mm 26. nóvember. Á Akureyri mældist mesta sólarhringsúrkoman 50,2 mm þann 3. desember. Það er mesta sólarhringsúrkoma sem hefur verið mæld á Akureyri í desember.

Nánar má lesa um tíðarfar ársins á vef Veðurstofu Íslands hér.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV