Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðarópera stuðli að heilbrigðara starfsumhverfi

Mynd með færslu
 Mynd: Erling Jóhannesson
Það er löngu tímabært að koma óperustarfsemi á traustan kjöl opinbers rekstrar, að mati stjórnar Bandalags íslenskra listamanna. Erling Jóhannesson, formaður félagsins, segir að Íslenska óperan bjóði upp á mjög óheilbrigt og óæskilegt starfsumhverfi fyrir listafólk. Félagið kallar eftir því að sett verði á laggirnar þjóðarópera með sambærileg rekstrarskilyrði og aðrar opinberar sviðslistastofnanir; Þjóðleikhúsið og Íslenski dansflokkurinn.

Félagið sendi í dag frá sér yfirlýsingu um mikilvægi þjóðaróperu, í ljósi kjaradeilna milli söngvara og Íslensku óperunnar, sem fréttastofa hefur fjallað um síðustu vikur. Í síðustu viku lýsti Klassís, fagfélag klassískra söngvara, vantrausti á hendur óperustjóra og stjórn Íslensku óperunnar vegna stjórnunarhátta síðustu ár. Félagið sakaði óperustjóra meðal annars um að láta kynbundinn launamun viðgangast innan óperunnar og að söngvarar sem leituðu réttar síns væru ekki ráðnir aftur til starfa. Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri hafnaði ásökunum félagsins og stjórn Óperunnar sendi frá sér yfirlýsingu í dag og lýsti yfir fullum stuðningi við Steinunni Birnu. Þar sagði að ásakanir óperusöngvara ættu ekki við rök að styðjast. 

Óperan verði rekin eins og Þjóðleikhúsið

Íslenska óperan er sjálfseignarstofnun með þjónustusamning við ríkið en nú er að störfum nefnd á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem hefur það hlutverk að kanna kosti og galla stofnunar þjóðaróperu. Bandalag íslenskra listamanna telur æskilegast að þjóðarópera verði rekin sem stofnun sem heyrir beint undir ríkið, á svipaðan hátt og Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenski dansflokkurinn.

Einkaréttarlegt rekstrarform henti ekki

Í yfirlýsingu Bandalagsins segir meðal annars að stjórnin sé sannfærð um að stofnun þjóðaróperu væri mikið gæfuspor sem gæti tryggt heilbrigt starfsumhverfi fyrir óperusöngvara og aðra listamenn sem koma að óperuflutningi á Íslandi. Rekstrarform einkaréttarlegs eðlis henti ekki jafn viðamikilli menningarstarfsemi og fer fram innan Óperunnar.

Listamenn ekki í neinni samningsstöðu

Erling segir í samtali við fréttastofu að með því myndi rekstrarábyrgðin færast til hins opinbera. „Eins og staðan er núna hefur hið opinbera ekkert samningavald, ríkið gerir ekki samninga við listamenn innan Óperunnar. Þetta er mjög óheilbrigt og óæskilegt vinnuumhverfi. Það er verið að semja á persónulegum nótum við alla sem koma að uppfærslum, umfangsmikil verkefni. Þarna er samið við marga tugi listamanna sem hafa langt nám og reynslu að baki. Og það er bara þessi eina stofnun svo listamennirnir eru ekki í neinni samningsstöðu,“ segir hann. „Þetta myndi ekki viðgangast innan ríkisstofnunar, þar væru samningar sem fólk gengi að,“ bætir hann við.

Starfsumhverfið bjóði hættunni heim

Samkvæmt því sem hefur komið fram hefur kjaraósætti í líkingu við það sem nú er uppi milli söngvara og Óperunnar ekki verið vandamál fyrr en á allra síðustu árum. Þarf að breyta rekstrarforminu til að koma því í lag?

„Meðan starfsumhverfið býður upp á þetta þá getur þetta alltaf gerst,“ segir Erling og bætir við að jafn viðamikil menningarstarfsemi og Íslenska óperan starfræki þurfi traustari rekstrargrunn og stöðugleika. Öðruvísi sé ekki hægt að tryggja að starfsemin geti orðið eins myndarleg og hún eigi að vera.

Óperuhús ekki forgangsatriði

Þarf þá sérstakt óperuhús undir þjóðaróperu?

„Það kemur í framtíðinni en við sættumst á það á sínum tíma að Sinfó og Óperan flyttu saman í Hörpu. En Harpa er samt ekki óperuhús, ekki í hefðbundnum skilningi. En forgangsmál er að stofnunin komist í eðlilegt horf og að þetta sé rekið af virðingu við listafólkið,“ segir Erling.