Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svavar Gestsson látinn

18.01.2021 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, er látinn 76 ára að aldri. Hann lést aðfaranótt mánudagsins 18. janúar á gjörgæsludeild Landspítalans.

Svavar fæddist á Guðnabakka í Stafholtstungum 26. júní 1944. Foreldrar hans voru Gestur Zóphónías Sveinsson og Guðrún Valdimarsdóttir. Hann eignaðist þrjú börn í fyrra hjónabandi.

Svavar útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1964, innritaðist í lögfræði við Háskóla Íslands sama ár og var við nám í Berlín á árunum 1967-1968.

Hann var alþingismaður fyrir Alþýðubandalagið frá 1978 til 1999, viðskiptaráðherra frá 1978-1979, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 1980 til 1983 og menntamálaráðherra frá 1988 til 1991. Þá var hann formaður Alþýðubandalagsins frá 1980 til 1987 og formaður þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra frá 1995 til 1999.

Svavar var sendiherra Íslands í Svíþjóð frá 2001 til 2006, sendiherra Íslands í Danmörku frá 2006-2010 og sendiherra Íslands gagnvart Afríkusambandinu árið 2008.

Eftirlifandi eiginkona Svavars er Guðrún Ágústsdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Börn Svavars og fyrri eiginkonu hans Jónínu Benediktsdóttur eru Svandís, Benedikt, Gestur og börn Guðrúnar eru Ragnheiður, Árni og Gunnhildur.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV