Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skipskaði í óveðri á Svartahafi

18.01.2021 - 03:18
Erlent · Tyrkland · Úkraína · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Sjávarútvegsdagurinn
Að minnsta kosti þrír skipverjar eru látnir eftir að flutningaskip sökk á Svartahafi undan Tyrklandsströnd í gær. Skipið var á leið frá Georgíu til Búlgaríu, og hugðist leita skjóls undan óveðri við bryggjuna í Bartin í Tyrklandi. Al Jazeera hefur eftir tyrknesku strandgæslunni að flutningaskipið hafi sokkið vegna þess að það tók á sig mikið vatn. 

Þrettán voru um borð í skipinu og er búið að koma sex þeirra til bjargar. Þeir eru allir við ágæta heilsu á sjúkrahúsi. Strandgæslan leitar að þeim fjórum sem enn er saknað. 

Skipið er skráð á Kyrrahafseyjunni Palau, en er í eigu úkraínska flutningafyrirtækisins Arvin Shipping. Úkraínska utanríkisráðuneytið staðfesti við Al Jazeera að ræðismenn Úkraínu væru til aðstoðar. 

Aðstæður eru verulega erfiðar á slysstað. Háar öldurnar valda því að björgunarskip strandgæslunnar sér lítið í kringum sig, og verður því að aðstoða það frá landi að sögn Sinan Guner, héraðsstjóra í Bartin.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV