Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

FBI rannsakar erlend áhrif á þinghúss-árás

18.01.2021 - 02:12
epaselect epa08923424 Supporters of US President Donald J. Trump in the Capitol Rotunda after breaching Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters entered the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA
Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakar hvort erlendar ríkisstjórnir, samtök eða einstaklingar hafi veitt fólki sem réðist inn í þinghúsið í Bandaríkjunum fjárhagsaðstoð. Þeirra á meðal er greiðsla upp á hálfa milljón bandaríkjadala í rafmyntinni bitcoin, sem virðist koma frá frönskum einstaklingi. Greiðslan barst þekktum öfgafullum hægrisinnum í Bandaríkjunum.

Bandaríska fréttastofan NBC hefur eftir bæði núverandi og fyrrverandi lögreglumanni úr FBI að greiðslurnar hafi verið millifærðar í síðustu viku. Hægt er að rekja greiðslur með bitcoin. FBI ætlar að athuga hvort eitthvað af peningunum hafi verið notað til þess að fjármagna eitthvað ólögmætt.

Þá telja bandarískar öryggisstofnanir að Rússar, Íranir og Kínverjar hafi gripið tækifærið og ýti undir sögusagnir sem gætu skapað sundrung í Bandaríkjunum. Rússneskir fjölmiðlar hafa birt fjölda fregna um ofbeldið í þinghúsinu, ákæruna gegn Donald Trump og lokanir samfélagsmiðla á aðgang Trumps. Þá greindi að minnsta kosti ein rússnesk fréttastofa frá því fólk úr antifa-hreyfingunni hafi dulbúist sem stuðningsmenn forsetans og ráðist inn í þinghúsið. Kínverskir miðlar hafa svo notað tækifærið til þess að láta svo virðast sem Bandaríkin séu í hnignun, og til þess að réttlæta herferð stjórnvalda gegn mótmælendum í Hong Kong.

Michael Sherwin, saksóknari í Washington, sagði á blaðamannafundi í síðustu viku að litið væri á árásina í þinghúsið á sama hátt og gagn-hryðjuverkaárás eða gagn-njósnaaðgerð. Litið verði á millifærslur, ferðagögn og samskiptagögn.