Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biðinni fylgir mikil óvissa og óöryggi

Mynd: Kristinn Þeyr / Kristinn Þeyr
Kona sem greindist með alvarlegar frumubreytingar í leghálsi á síðasta ári segir mikið óöryggi fylgja því að þurfa að bíða mánuðum saman eftir niðurstöðu úr leghálsskimun. Sýni hennar er eitt af 2000 sem liggja í kassa hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Sýni ekki greind frá í nóvemberbyrjun

Sýni hafa ekki verið greind hér í á þriðja mánuð, eða frá því í byrjun nóvember. Um áramót færðist krabbameinsleit frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslustöðva. Til að byrja með stendur til að senda sýnin til Danmerkur í greiningu en af því hefur ekki orðið. Þá er kerfið sem á að taka við skimuninni ekki tilbúið.

Tvö þúsund sýni, tvö þúsund konur

 Í hópnum sem bíður eru konur sem voru í reglubundnu stroki, en líka konur sem hafa verið í sérstöku eftirliti vegna frumubreytinga. Hrafnhildur Baldursdóttir er ein þeirra. „Ég fer í keiluskurð í júní í fyrra þar sem eru fjarlægðar bæði vægar og hááhættubreytingar í leghálsi og svo fer ég í skimun núna í nóvember, sem sagt svona eftirfylgni þar sem var verið að athuga hvort aðgerðin hafi heppnast og nú bíð ég bara eftir að fá svör. Þetta er náttúrulega mikil óvissa og óöryggi, bara hreint út sagt. Óöryggi að fá ekki að vita og mjög erfitt að vita af tvö þúsund sýnum sem liggja í pappakassa og bíða eftir skimun, tvö þúsund konur.“ 

Læknar áhyggjufullir, ráðherra rólegur

Félag fæðingar- og kvensjúkdómalækna segir ástandið geta tafið greiningar á krabbameini og þar með ógnað heilsu kvenna. Ekki liggi fyrir hvenær sýnin verði rannsökuð og hvenær konurnar og læknar þeirra fái svör. Þá hafi ekki verið greind bráðasýni frá 21. desember. Heilbrigðisráðherra deilir ekki áhyggjum læknanna og segir að bráðlega komist allt í viðunandi horf. Heilsugæslan valdi verkefninu. Nýja fyrirkomulagið verði mjög gott og þjónustan bæði nær konum og ódýrari. Hrafnhildur er ekki sátt. „Þetta er náttúrulega bara ekki nógu gott, mér fannst bara mjög erfitt að heyra af þessu.“

Biðin áður verið löng

Það er ekki nýtt að konur þurfi að bíða eftir niðurstöðu leghálsskimunar. Í nóvember var allt að fjögurra mánaða bið eftir niðurstöðu úr leghálsspeglun. Krabbameinsfélagið sagði það skýrast af miklu álagi við að endurskoða eldri sýni.