
Stuðningsmenn forsetans vilja náðun
Ryan skildi eftir sig talsvert af upplýsingum áður en hún æddi inn í þinghúsið ásamt æstum múg. Samkvæmt dómsskjölum birti hún mynd af sér á samfélagsmiðlum um borð í einkaþotu á leiðinni til Washingtonborgar daginn fyrir óeirðirnar. Þá voru myndir af henni á tröppum þinghússins og við glugga með brotinni rúðu eftir múginn. Í myndbandi á Facebook greinir hún frá því að hún ætli að arka inn í þinghúsið. Í beinni útsendingu á Facebook bætti hún því við að hópurinn ætlaði að æða inn í þinghúsið hvað sem það kostaði. Hún notaði svo tækifærið á leiðinni upp tröppurnar til að auglýsa fasteignasölu sína. Eftir óeirðirnar í þinghúsinu skrifaði hún á Twitter að þetta hafi verið með betri dögum í lífi hennar.
Verjandi annars stuðningsmanns forsetans krefst einnig náðunar fyrir hans hönd. Þann stuðningsmann þekkja eflaust margir af myndum þar sem hann klæddist fáu öðru en vísundaskinni og -hornum. Verjandi hans, Albert Watkins, segir að Trump eigi að sýna virðingu og náða þá sem voru friðsamir í þinghúsinu, þar sem þeir voru í boði forsetans. Watkins bætir því við að skjólstæðingur hans sé ekki á sakaskrá, og stundi jóga reglulega. Eins minnist hann á mataræði mannsins, en hann hafnaði matnum sem honum var boðið í gæsluvarðhaldi þar sem hann var ekki lífrænt ræktaður. Maðurinn á yfir höfði sér sex ákæruatriði og á ekki möguleika á lausn gegn tryggingu.