
Sögulegur fjöldi aftaka í stjórnartíð Trumps
Að sögn BBC fór Higgs með konurnar, þær Tanji Jackson, Tamika Black og Mishann Chinn, í kofa ásamt félaga sínum Willis Haynes. Higgs var dæmdur fyrir að hafa fært Haynes byssu og skipað honum að skjóta þær. Haynes játaði að hafa skotið þær allar, og hlaut lífstíðardóm fyrir. Verjandi Higgs biðlaði til forsetans Donald Trump um að milda dóminn, því það væri óréttlátt að hann fengi þyngri refsingu en sá sem tók í gikkinn.
Kveðinn var upp úrskurður fyrir dómi síðasta þriðjudag að fresta ætti aftökum þeirra Higgs og Corey Johnson. Þeir höfðu báðir smitast af COVID-19 í fangelsinu, og sögðu verjendur þeirra að skemmdir í lungnavef ættu eftir að valda þeim þjáningu í aftökunni. Dómsmálaráðuneytið áfrýjaði úrskurðinum og vann málið fyrir áfrýjunardómstól og hæstarétti, þar sem íhaldssömu dómararnir sex greiddu atkvæði með aftökunni en hinir þrír á móti.
Sögulegur fjöldi
Sautján ár liðu frá síðustu aftöku alríkisfanga þar til í júlí á síðasta ári þegar þær voru framkvæmdar aftur. Þá eru 130 ár síðan alríkisfangar voru síðast teknir af lífi á tímum forsetaskipta, það er frá niðurstöðum kosninga þar til nýr forseti tekur við.
Hæstaréttardómarinn Sonia Sotomayor skilaði sératkvæði þar sem hún skrifaði að sér þætti þetta ekki réttlæti. Eftir nærri tveggja áratuga hlé á aftökum alríkisfanga hefði ríkisstjórnin átt að halda aftur af sér og vera viss um að framkvæma þær löglega. Þegar það tókst ekki hefði hæstiréttur átt að gera það, sem hún telur dómstólinn ekki hafa gert. Þá setti hún aftökurnar frá því í júlí í sögulegt samhengi og benti á að á hálfu ári hafi þrefalt fleiri alríkisfangar verið teknir af lífi en síðustu sex áratugi þar á undan.