
Rýmingu aflétt á Seyðisfirði nema á skriðusvæði
Á Austfjörðum hefur verið appelsínugul veðurviðvörun í gildi um helgina. Úrkoma mældist í kringum 30 millimetra en búist var við allt að 50. Engin hreyfing á jarðlögum í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar mældist í þessari úrkomu en vatnshæð í borholum í botnahlíð hækkaði örlítið samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofunar. Engar tilkynningar um skriður hafa borist Veðurstofu eða almannavörnum.
Til öryggis var gripið til rýminga og þurftu á milli sextíu og sjötíu manns að yfirgefa heimili sín yfir helgina. Þau mega nú snúa aftur ásamt fólks sem býr í Fossgötu sem hefur verið á rýmingarsvæði síðan stóra skriðan féll fyrir mánuði síðan. Ekki þykir tilefni til að viðhalda rýmingu í Fossgötu þar sem hlíðin virðist vera stöðug og farvegur Búðarár hefur verið dýpkaður.
Þannig það eru í rauninni öllum rýmingum aflétt nema handan skriðunar?
Jú, það eru hús á Hafnargötu og eins handan skriðunar sem eru ennþá í rýmingu. Þetta er til skoðunar má segja daglega. Það verður skoðað næst á morgun og vonandi fer að draga til tíðinda. En það er óvíst enn sem komið er,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.
Fréttin hefur verið uppfærð.