
Le Drian hefur áhyggjur af Íran
Fréttastofa Reuters hefur þetta eftir Le Drian. Íranir hafa fært auðgun úrans í aukana eftir að stjórn Donalds Trumps dró Bandaríkin úr samningi Írans við stórveldin. Fyrr í þessum mánuði hófust tilraunir í Íran til þess að auðga 20% kljúfanlegt úran í neðanjarðarkjarnorkuveri sínu í Fordow. Það er jafn langt og ríkið var komið með tilraunir sínar þegar samningar náðust um að Íran slakaði á.
Le Drian gagnrýnir aðgerðir Trump-stjórnarinnar. Hann segir hana hafa reynt að beita írönsku stjórnina harkalegum þrýstingi, en það hafi ekki skilað sér í öðru en meiri ógn og hættu. Þetta verði að stöðva því Íranir séu að vinna í því að koma sér upp kjarnavopnum.
Það gæti orðið hægara sgat en gert fyrir stjórn verðandi Bandaríkjaforseta, Joe Biden, að ganga aftur til samninga við Íran. Samhliða því að draga Bandaríkin einhliða úr samningnum árið 2018 lagði stjórn Trumps einnig harðar viðskiptaþvinganir á Íran.
Biden hefur sjálfur sagst allur af vilja gerður við að taka samninginn aftur upp, ef Íranir eru tilbúnir að fylgja samningsatriðum. Erindrekar annarra aðildarríkja að samningnum segja Írani ítrekað hafa brotið gegn honum. Íranir segjast tilbúnir að gangast aftur við samningnum ef viðskiptaþvinganir gegn ríkinu verða dregnar til baka.