Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fullkomlega ósammála um söluna á Íslandsbanka

17.01.2021 - 15:57
Mynd: RÚV / RÚV
Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að nú sé langbesti tíminn til að hefja sölu á hluti ríkisins í Íslandsbanka. Hagfræðingur við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn er því algjörlega ósammála og segir að núna sé aftur á móti afar slæmur tími til slíks og líkti því við brunaútsölu vegna faraldursins og frystra lána ferðaþjónustunnar.

Meira en hundrað milljarðar í frystingu

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Guðrún Johnsen, hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, ræddu kosti og galla fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka í Silfrinu í morgun. Þær eru í grundvallaratriðum ósammála um tímasetningu sölunnar. Þeim greindi á um hversu stór hluti af lánum Íslandsbanka væri í frystingu vegna ferðaþjónustunnar og var hlutfallið ýmist 10 prósent, 14 eða 20 prósent. En fjárhæðirnar sem eru nú frystar hlaupa á bilinu 100 til 180 milljörðum króna. 

Betri tíð framundan eða áhættusæknir fjárfestar?

Ásdís segir að nú sé afar góður tími til sölu á hlutnum, sem er um 25 prósent, meðal annars vegna þess að ríkið á orðið stóran hlut í íslenska bankakerfinu og það sé almennt ekki talið mjög æskilegt. Þá undirstrikar hún að ástæða frystingu lánanna sé til að halda ferðaþjónustunni á lífi, en nú værum við að sjá fyrir endann á faraldrinum og mun betri tímar framundan. 

Guðrún telur hins vegar að svona stórt lánasafn í frystingu laði að sér áhættusækna fjárfesta. „Ef þingið samþykkir þetta, þá er verið að laða að fjárfesta sem eru áhættusæknir. Og þeir hafa áhuga á einhverju öðru heldur en reglulegri bankastarfsemi.” Með öðrum orðum telur hún að nýir eigendur muni leysa upp ferðaþjónustufyrirtæki sem áður voru í skjóli. 

 „Þessi hræðsla um hver verður hugsanlegur eigandi er mjög skrýtin afstaða. Þú ert svolítið föst í fortíðinni,“ segir Ásdís. Guðrún segir á móti að ef hún sé það þá sé það bara „fine”, en undirstrikar að það sé eitt að setja lög og reglur, en annað að fara eftir þeim og hafa með þeim eftirlit.

Hægt er að hlusta á brot úr viðtali Fanneyjar Birnu Jónsdóttur í Silfrinu í morgun við Ásdísi og Guðrúnu í spilaranum hér að ofan.