Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vel undirbúin rýmingum: „Taskan stendur við rúmgaflinn“

16.01.2021 - 18:57
Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Engar hreyfingar hafa mælst í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar þrátt fyrir mikla rigningu undanfarinn sólarhring. Sumir eru með ferðatöskuna tilbúna ef til rýmingar skyldi koma.

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Austfjörðum og rigndi mikið á Seyðisfirði í nótt og í dag. Því urðu allt að sjötíu Seyðfirðingar að yfirgefa heimili sín í gær, til viðbótar þeim sem hafa ekki mátt fara heim frá því að stóra skriðan féll um miðjan desember. 

Hvernig er að búa á þessu svæði? „Óöryggi. Já örlítið, en það er vel fylgst með og ég er bara öruggur finnst mér,“ segja Ingibjörg Sigurðardóttir og Trausti Marteinsson, Seyðfirðingar.

Flestir sem búa á rýmingarsvæði núna máttu búa við tveggja vikna rýmingu yfir jólin. „Við vorum búin að undirbúa okkur. Þetta var búið að ræða mikið að þetta væri það sem við máttum búast við,“ segir Trausti.

„Ég kom heim á gamlársdag, þá gekk ég ekkert frá ferðatöskunni. Hún stóð bara við rúmgaflinn, þannig að það var bara að loka henni og labba út,“ segir Ingibjörg.

Fjöldahjálparstöð er opin í félagsheimilinu Herðubreið. Engar hreyfingar hafa mælst í dag á hlíðinni ofan bæjarins.  „Það lítur út fyrir að allt sé með kyrrum kjörum þó það hafi rignt á okkur, svo það er léttir. Það er búið að vera rigning en ekki úrhelli eins og var fyrir skriðurnar,“ segir Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs.

Staðan verður metin að nýju í fyrramálið. Flestir fundu sér nýjan samastað á Seyðisfirði. „Það þótti mér rosalega vænt um. Það vildu allir vera á Seyðisfirði. Þó að fjallið hafi brugðist okkur þá bregðumst við ekki Seyðisfirði svo við ætlum að vera áfram. Við erum spennt að sjá hvaða vörnum verður beitt, það er almennt mjög gott hljóð í Seyðfirðingum þó að mörgum sé að sjálfsögðu brugðið,“ segir Davíð.