Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þetta er ekkert einfalt ef menn halda það“

Mynd: EPA-EFE / EPA POOL

„Þetta er ekkert einfalt ef menn halda það“

16.01.2021 - 21:42
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands var að vonum ánægður með 15 marka sigur Íslands á Alsír á HM í handbolta í Egyptalandi í kvöld. Ísland vann leikinn 39-24.

„Já, ég er mjög sáttur. Þetta var frábærlega vel leikinn leikur af okkar hálfu, bæði vörn og sókn. Það sást mjög vel í dag hvað leikmenn voru vel stemmdir. Það var frábær stemning í dag og mikill vilji. Við erum svona að fylgja eftir þessum varnarleik sem við sýndum í síðustu leikjum á móti Portúgal. Gríðarlega sterk vörn og við fengum góða markvörslu í dag. Sóknarleikurinn gekk frábærlega. Hann var mjög vel útfærður og var agaður. Við spiluðum kannski ekki mörg kerfi en við gerðum það sem við ætluðum okkur og við gerðum það mjög vel,“ sagði Guðmundur við RÚV eftir leikinn í Egyptalandi í kvöld.

Hálfleikstölur voru 22-10 fyrir Ísland. „Fyrri hálfleikurinn var bara stórkostlega vel útfærður. Þetta er ekkert einfalt ef menn halda það. Þetta lið er erfiður andstæðingur alla jafna. En varnarleikurinn okkar var bara frábær og við fengum markvörslu og hraðaupphlaup í kjölfarið. Það er ekkert einfalt að halda þeim í 10 mörkum í einum hálfleik. Síðan var útfærslan að hálfu drengjanna bara frábær. Við fengum inn menn núna með mjög góða innkomu. Það var mjög ánægjulegt að fá meiri breidd í liðið,“ sagði Guðmundur.

„Lítur kannski voða sakleysislega út“

Leikmenn Íslands vörðu ekki löngum tíma í búningsklefanum í hálfleik. Hví ekki? „Við fórum bara yfir hlutina og lögðum áherslu á það að byrja þetta á fullu, ekki slaka neitt á. Hvert mark telur. Ég vildi bara fá stutta upphitun í gang, þannig að menn yrðu komnir inn í seinni hálfleikinn á fullu. Ekki eins og stundum gerist þegar menn leiða í hálfleik með svona miklum mun tekur stundum langan tíma að komast aftur í gang. En við lögðum áherslu á það á byrja seinni hálfleikinn á fullu og klára þetta með stæl.“

Ísland mætir Marokkó í næsta leik á mánudagskvöld klukkan 19:30. Marakkóska liðið er áþekkt því alsírska að mörgu leyti. „Við vorum auðvitað lítið búnir að æfa á móti þessari framliggjandi vörn. Við fórum aðeins í það í gær, en höfðum bara klukkutíma til þess. Við fórum bara yfir það sem við ætluðum að spila. Við ætluðum ekki að flækja hlutina mikið. Við ætluðum bara að framkvæma ákveðnar innleysingar og gera svo bara árásir á þá. Það gekk fullkomnlega upp. Vonandi getum við tekið það með okkur inn í næsta leik. En þá mætum við lið sem spilar enn framar, svokallaða 3-3 vörn. Maður þarf bara að vera klár í slaginn. Þetta lítur kannski voða sakleysislega út og allt voða auðvelt. En maður þarf að gíra sig upp í svona leiki, því það er allt annað tempó. Við sáum líka árásirnar hjá Alsír að þeir komu alveg á fullu. Það er ekkert einfalt að stoppa þetta. En í dag gekk þetta frábærlega. Þannig eru þessir leikir á móti svona liðum,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.