Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sonurinn fattar ekki að pabbi syngur Hvolpasveitarlagið

Mynd: RÚV / RÚV

Sonurinn fattar ekki að pabbi syngur Hvolpasveitarlagið

16.01.2021 - 11:40

Höfundar

„Þetta er afdrifaríkasti hálftími ævi minnar,“ segir Unnsteinn Manuel Stefánsson tónlistarmaður um þá ákvörðun að syngja upphafslagið í þáttunum vinsælu um hvolpana klóku í Hvolpasveit. Hann á tveggja ára gamlan son sem er mikill aðdáandi hvolpanna en hefur ekki hugmynd um það ennþá hver syngur lagið.

Þegar bræðurnir Unnsteinn Manuel og Logi Pedro Stefánssynir voru að alast upp tók Unnsteinn eftir ýmsu í fari yngri bróður síns sem hann kannaðist við í sjálfum sér. Hann taldi litla bróður vera að apa taktana upp eftir sér en áttaði sig seinna á að líklega væru þeir einfaldlega líkir sökum skyldleika og uppeldis.

Unnsteinn eignaðist sjálfur dreng árið 2018 og skyldleiki feðganna leynir sér ekki. „Svo sé ég drenginn minn og hann er bara svo athyglissjúkur og músíkalskur og bara allt í gangi,“ segir Unnsteinn stoltur í þættinum Tónatali sem er á dagskrá í kvöld.

Sonurinn er aðdáandi Hvolpasveitar en áttar sig ekki á því hvers vegna röddin sem syngur upphafslag þáttanna er svo kunnugleg. „Hann fattar ekki að pabbi hans syngur lagið, það myndi hækka virðingarstöðu mína á heimilinu um helling sko,“ segir Unnsteinn glettinn.

Margir íslenskir foreldrar þekkja Hvolpasveit sem er afar vinsæl hjá yngstu kynslóðinni og Unnsteinn sér ekki eftir að hafa sungið lagið sem hljómar daglega á mörgum heimilum. „Þetta er afdrifaríkasti hálftími ævi minnar,“ segir hann um það og tekur nokkur tóndæmi úr laginu.

Matthías Már Magnússon ræðir við Unnstein Manuel Stefánsson í Tónatali sem er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 21:30. Þeir ræða saman um Retro Stefson og sólóferil Unnsteins. Þeir Unnsteinn og Hermigervill spila saman nokkur af helstu lögum og áhrifavöldum Unnsteins í bland við glæný lög.

Tengdar fréttir

Tónlist

Nennir ekki endalaust að syngja fyrir sjálfa sig

Tónlist

„Skuldir, þunglyndi, alkóhólismi – Danmörk“