Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ógn við heilsu kvenna

16.01.2021 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Fæðinga- og kvensjúkdómalæknar segja það ógna heilsu kvenna að ekki hafi verið greind sýni úr leghálsskimun í rúma tvo mánuði. Slæmt sé að það kerfi sem taka átti við af leitarstöð Krabbameinsfélagsins um áramót sé ekki tilbúið. Sýni frá því í nóvemberbyrjun hafi því ekki verið greind.

„Við höfum mestar áhyggjur af því að kerfið sem átti að taka við skimunarkerfinu sem var áður, það er ekki tilbúið,“ segir Aðalbjörg Björgvinsdóttir, formaður Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna. 

Um áramótin fluttist framkvæmd leghálsskimana frá leitarstöð Krabbameinsfélagsins til heilsugæslustöðva. Ákveðið hefur verið að sýnin verði send til Danmerkur til greiningar. Aðalbjörg segir að það tefji greiningu að kerfið sé ekki tilbúið.

„Þannig að í dag getum við ekki sent beiðnir fyrir sýnin sem við tökum og við getum ekki fengið svör úr sýnunum sem við tökum,“ segir Aðalbjörg.

Aðalbjörg segir slæmt að þegar eitt kerfi sé lagt niður að annað geti ekki strax tekið við. 

„Áhættan er sú að það sé hægt að missa af einhverju af því að það sé þarna bil sem þarf að brúa, bil milli kerfa,“ segir Aðalbjörg.

Félag kvensjúkdóma- og fæðingalækna sendi í vikunni embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytinu bréf til ítrekunar á fyrri bréfum þar sem lýst er áhyggjum af öryggi í meðhöndlun sýna og af skimunarkefinu. Þar segir að staðan sé stór ógn við öryggi og heilsu kvenna. Félagið beri hag kvenna fyrir brjósti og geti ekki sætt sig við að enginn axli ábyrgð á þeim alvarlegu hættum sem blasi við. Aðalbjörg segir að á meðan staðan sé svona safnist upp ógreind sýni.

„Ég veit að það eru sýni frá því í byrjun nóvember sem við höfum ekki fengið svör fyrir,“ segir Aðalbjörg.

Þá hafa ekki verið greind svonefnd bráðasýni frá 21. desember, segir Aðalbjörg.

Það er þó ekki nýtt að konur þurfi að bíða niðurstöðu leghálsskimunar.

Í nóvember var staðan þannig að konur þurftu að bíða allt að fjóra mánuði frá krabbameinsskimun þangað til niðurstaða fékkst úr leghálsspeglun. Þá þótti biðin óvenjulöng og sagði yfirlæknir Krabbameinsfélagsins hafa skýrast af miklu álagi við að endurskoða eldri sýni.