„Hef alltaf áhyggjur af því að þeir standi sig ekki“

Mynd: Skapti Hallgrímsson / RÚV

„Hef alltaf áhyggjur af því að þeir standi sig ekki“

16.01.2021 - 10:00

Höfundar

Gunnar Malmquist Gunnarsson, Þórsari og pabbi landsliðsmannanna Arons Einars og Arnórs Þórs segist stolur af því að eiga tvo fyrirliða. Gunnar var gestur í þættinum Sögur af landi. Hann segist alltaf fá smáhnút í magann þegar synirnir spila í stórleikjum.

Var sjálfur fastur fyrir

„Ætli ég eigi ekki rúmlega 500 leiki með Þór. Maður var ekkert lúnkinn en maður fór þetta á hörkunni og skapinu. Ég hef oft fengið orð fyrir að vera grófur en svona lítill stubbur eins og ég miðað við þessa lurka, þá varð maður að vera nokkuð fastur fyir. Eins og einn góður sagði við mig: „Þú helvítið þitt þú ferð alltaf í andlitið á mér.“ Hvað á ég að gera, ég næ ekki hærra, sagði ég þá. Þetta var Alfreð Gíslason.“

Þoldi ekki KA-menn innan vallar

Á ferlinum háði Gunnar margar rimmur við KA sem hann segir að hafi oft verið ansi skrautlegar. „Það voru margir góðir strákar í þessu þó maður hafi ekki þolað þá þegar þeir komu inn á völlinn, það er bara eðlilegt.“

Fyrirliðar í handbolta og fótbolta

Bræðurnir Aron Einar og Arnór Þór Gunnarssynir hafa gert það gott í hvor í sinni boltagreininni, handbolta og fótbolta. Aron Einar þekkja flestir fyrir að bera fyrirliðabandið hjá fótboltalandsliðinu sem náð hefur mögnuðum árangri undanfarin ár. Á dögunum var svo tilkynnt að bróðir hans, Arnór Þór, væri nýr fyrirliði handboltalandsliðsins.

„Þeir eru svolítið ólíkir að sumu leyti. En svo bara ólust þeir upp í þessu, voru alltaf á æfingum og voru alltaf að spila. Við fylgdum þeim um allt land, bæði í fótbolta og handbolta. Þegar ég var þjálfari í handboltanum þá fylgdi ég þeim náttúrlega. Við fylgdum þeim á landsliðsæfingar og þetta er búið að vera mjög gaman. Við erum búin að fara á handboltamót þrisvar og svo fórum við til Frakklands og Rússlands. Þetta er svakaleg upplifun að gera þetta.“

Með hnút í maganum

Gunnar segir að það sé sérstök tilfinning að horfa á strákana sína spila á heims- og Evrópumeistaramótum. „Það er alltaf svolítill hnútur í maganum. Ég hef alltaf áhyggjur af því að þeir standi sig ekki nógu vel, ég hef ekkert áhyggjur af liðinu. Að þeir séu að gera einhverjar bommertur eða eitthvað, ég hef meiri áhyggjur af því.“ 

Þeir eru nú ekkert vanir því?

„Nei, nei, þeir hafa staðið sig gífurlega vel báðir tveir.“

„Allt í einu hrúgast inn peningar“

Gunnar segir að það hafi verið erfitt að horfa á eftir stákunum þegar þeir fóru að heiman. Aron fór ungur til AZ Alkmar í Hollandi og Arnór fór suður til Vals, áður en hann fór til Þýskalands þar sem hann spilar í dag. Aron fór fyrst einn út en þegar hann flutti til Englands bað hann mömmu sína að koma og aðstoða sig.

„Allt í einu varð til fullt af peningum og strákur sem hafði ekki mikið. Við þurftum að senda pening til Hollands til þess að hann gæti lifað. Svo þegar hann kemur til Englands þá allt í einu hrúgast inn peningar í þeim skilningi, miðað við hvað hann hafði þannig að hún varð aðeins að reyna að halda utan um hann.“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Aron Einar

Tengdar fréttir

Handbolti

„Breytist ekkert þótt ég sé með eitthvað band“

Handbolti

Arnór Þór: Hrikalega stoltur að vera fyrirliði

Fótbolti

Aron Einar: „Þetta markar engin endalok“

Handbolti

Aron Gunnars mættur frá Katar til Malmö fyrir leikinn