Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Búa sig undir möguleg mótmæli og birgja glugga

16.01.2021 - 19:28
Mynd: EPA / EPA
Yfirvöld víða í Bandaríkjunum búa sig undir mótmæli og jafnvel óeirðir í aðdraganda innsetningar nýs forseta á miðvikudag. Alríkislögreglan hefur varað við því að vopnaðir öfgahópar hafi ákveðið að safnast saman við þinghús allra ríkja í landinu um helgina og fram yfir miðvikudag þegar Joe Biden tekur við forsetaembættinu. 

Í höfuðborginni Washington er búið að negla fyrir glugga í næsta nágrenni við þinghúsið og tómlegt er um að litast á götunum, þar er helst að finna lögreglumenn og einn og einn stuðningsmann Trumps. Nokkrum neðanjarðarlestarstöðvum á þessum slóðum hefur verið lokað. Yfirvöld um öll Bandaríkin eru í viðbragðsstöðu, þar á meðal i Michigan-ríki. „Þar sem við gerum ráð fyrir óþekktum fjölda mótmælenda á lóð þinghússins á sunnudag tilkynni ég hér í dag að við ætlum enn að fjölga einkennisklæddu lögreglufólki,“ sagði Joe Gasper, ríkislögreglustjóri Michigan-ríkis í dag.

Ofbeldisfull innrás í þinghúsið í Washington 6. janúar er fólki enn ofarlega í huga. Yfir hundrað manns hafa verið handtekin vegna hennar. Michael Fanone, lögreglumaður í Washington, var einn þeirra sem fór á vettvang óeirðanna í og við þinghúsið. „Ég man að ég reyndi að halda í byssuna mína og að ég heyrði menn segja: Drepum hann með byssunni hans. Ég var skotinn með rafbyssu aftan í hálsinn sex sinnum eða svo. Það var ömulegt,“ segir Fanone.