
Breska afbrigði kórónuveirunnar greinist í Argentínu
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin tilkynnti um þetta nýja afbrigði veirunnar um miðjan desember og síðan þá hefur það fundist í tugum landa, þar á meðal á Íslandi.
Á vef landlæknisembættisins segir að afbrigðið einkennist af óvenjumörgum stökkbreytingum á gaddapróteini veirunnar (e. spike protein) auk annarra stökkbreytinga.
Sömuleiðis að þó viðbúið sé og vitað að endurteknar stökkbreytingar verði á veirum sem leiði til nýrra afbrigða, gefi fyrstu rannsóknir í Bretlandi til kynna að þetta tiltekna afbrigði smitist frekar en fyrri afbrigði.
Tæplega 1,8 milljónir hafa greinst með COVID-19 í Argentínu og ríflega 45 þúsund hafa látist síðan í mars. Í liðinni viku vöruðu yfirvöld við aukinni útbreiðslu og tóku fyrir næturskemmtanir og að fleiri en tíu kæmu saman í senn. Nú hefur beint flug frá Bretlandi til Argentínu verið bannað.