
Bandaríkin hóta að slíta samstarfi við Mexíkó
Talsmaður bandaríska dómsmálaráðuneytisins segir ráðuneytið standa við rannsókn sína á Salvador Cienfuegos. Gögn sem ráðuneytið hafi fengið frá mexíkóskum yfirvöldum hafi ekki verið fölsuð, hefur AFP fréttastofan eftir honum. Mexíkó hafi hins vegar brotið gegn samningi ríkjanna með því að gera rannsóknargögn opinber. Því verða bandarísk yfirvöld að íhuga hvort tilefni sé til að halda samstarfi við Mexíkó áfram.
Ákærður fyrir mútuþægni
Cienfuegos var handtekinn í Bandaríkjunum í október, grunaður um aðild að framleiðslu og dreifingu á þúsundum kílóa af kókaíni, heróíni, amfetamíni og maríjúana. Cienfuegos var varnarmálaráðherra í stjórnartíð Enrique Pena Nieto árin 2012 til 2018. Samkvæmt ákæru í Bandaríkjunum þáði Cienfuegos mútur frá H-2 eiturlyfjagenginu fyrir að aðstoða það. Meðal sönnunargagna voru þúsundir smáskilaboða á milli Cienfuegos og gengismeðlima.
Óþægileg tengsl
Málið olli strax deilum á milli Bandaríkjanna og Mexíkó. Lopez Obrador sakaði fíkniefnadeild bandarísku lögreglunnar, DEA, um að fara á bak við mexíkósk stjórnvöld. Það kom honum sérstaklega í bobba að Cienfuegos er fyrrverandi herforingi, því Lopez Obrador hefur fært hernum aukin völd í baráttunni við eiturlyfjagengi í Mexíkó.
Málið gegn Cienfuegos var látið niður falla í Mexíkó á fimmtudag. Ríkissaksóknari sagði engar sannanir fyrir því að ráðherrann fyrrverandi hafi átt samskipti við menn úr genginu, þrátt fyrir ásakanir Bandaríkjamanna. Þá þvertók saksóknari fyrir að Cienfuegos hafi gert nokkuð til að vernda eða aðstoða félaga í genginu.
Mexíkósk yfirvöld hafa þegar hótað því að svipta DEA-liða í Mexíkó diplómatískri friðhelgi vegna málsins.