Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Appelsínugul viðvörun eystra

16.01.2021 - 09:44
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Appelsínugul viðvörun er í gildi á Austfjörðum fram að kvöldmat vegna mikillar rigningar. Sú viðvörun er ekki síst til komin vegna þess að Seyðisfjörður er sérstaklega viðkvæmur fyrir rigningu vegna aðstæðna þar. Spáð er mikilli úrkomu fram á seinni hluta dags þegar dregur úr henni. Á Seyðisfirði er spáð 45 mm uppsafnaðri úrkomu frá því seint í gærkvöld þar til seinni partinn í dag.

Veðurspáin í dag er annars svohljóðandi: Austan átta til þrettán metrar á sekúndu á austanverðu landinu fram að hádegi, annars norðlæg átt fimm til tíu metrar á sekúndu en tíu til fimmtán með suðurströndinni. Rigning austast, lengst af talsverð, annars rigning eða slydda með köflum. Vestan tíu til átján sunnanlands í kvöld og nótt og skúrir en hæg breytileg átt og dálítil slydda norðantil. Vestlæg eða breytileg átt, fimm til þrettán á morgun hvassast á Austfjörðum og með suðurströndinni. Snjókoma með köflum norðaustantil annars víða él. Hiti núll til sjö stig en heldur kaldara á morgun.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV