Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stökkbreytt afbrigði breiðist hratt út í Brasilíu

15.01.2021 - 19:32
Mynd: EPA / EPA
Mikil neyð ríkir í Brasilíu þar sem stökkbreytt afbrigði af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 breiðist hratt út. Spítalar eru yfirfullir og súrefniskútar á þrotum. 

Yfir 200.000 hafa látist úr veirunni í Brasilíu. Það er næst flest dauðsföll á heimsvísu. Flest eru þau í Bandaríkjunum. Smitin í Brasilíu eru orðin yfir 8,3 milljónir. Aldrei hafa greinst eins mörg smit daglega í landinu og nú þessa dagana. Stökkbreytt afbrigði hennar hefur verið greint þar, og er talið að það smitist hraðar en aðrir stofnar en er ekki talið valda alvarlegri veikindum. Bresk yfirvöld hafa bannað flug frá Suður-Ameríku og Portúgal til að hindra að afbrigðið berist þangað.

Heilbrigðisstarfsfólk í Brasilíu er að niðurlotum komið. „Við höfum misst marga kollega, tæknimenn og hjúkrunarfræðinga,“ Halenice Rodrigues Messner Neves, hjúkrunarfræðingur í Rio de Janeiro. 

Carlos Vasconcellos, læknir, segir að margt heilbrigðisstarfsfólk hafi mætt til vinnu þrátt fyrir að vera með væg einkenni COVID-smits. „Því þau hefðu ekki fengið borgað hefðu þau misst af vakt,“ segir hann.

Í borginni Manaus í Amazonas, stærsta ríki landsins, kom fólk saman við spítala í gær og mótmælti því ekki væri til nægt súrefni til að gefa öllum COVID-sjúklingum sem á því þurfa að halda. Ein þeirra var Mayline da Mata, sem missti ömmu sína. „Amma mín dó í dag úr súrefnisskorti. 21 sjúklingur var á gjörgæsludeild og amma mín, 84 ára, lifði ekki af. Hana vantaði 15 lítra af súrefni. Hún fékk ekki nóg.“ Í dag flutti herinn súrefnisbirgðir til ríkisins. 

Sjúkrahús í Amazonas eru yfirfull. Kæligámum hefur verið komið fyrir við spítala því ekki er meira pláss í líkhúsum. Jair Bolsonaro, forseti landsins, hefur lýst því yfir að COVID-19 sé ekki mikið alvarlegra en flensa og hefur verið gagnrýnt að takmarkanir hafi ekki verið nógu miklar. Nú er þó í gildi útgöngubann um nætur í Amazonas.