Brexit og viðskiptasamningur og enginn vandi
Þetta virtist allt svo einfalt á aðfangadag, þegar Boris Johnson forsætisráðherra Breta kynnti þjóðinni viðskiptasamning sem hann hafði nú náð, seint og um síðir, við Evrópusambandið. Í fyrsta skipti síðan 1973 yrði Bretland fullvalda strandríki með fulla stjórn á miðunum, sagði forsætisráðherra.
Brexit-gleðiboðskapur jólanna drukknar í harmasöng bresks sjávarútvegs
Þessi gleðiboðskapur drukknar þó þessa dagana í harmasöng úr breskum sjávarútvegi. Í samtali við Spegilinn nýlega sagði Barrie Deas formaður Breska sjómannasambandsins að hann óttaðist að sjávarútvegurinn stæði verr eftir Brexit en áður. – Veiðistjórn kemur ekki í stað markaðar. Fyrir sjávarútveginn er viðskiptasamningurinn við ESB í fáu sambærilegur við aðild að markaðs- og tollabandalagi ESB. Eftir óhindruð viðskipti í áratugi er Bretland nú útlönd fyrir ESB-löndin 27.
Blómstrandi skelfiskútflutningur fölnar
Það breytir ýmsu. Bæði útflytjandi í Bretlandi og innflytjandi í ESB-landi þurfa nú að standa skil á ýmiss konar tollskjölum og heilbrigðisvottorðum, sem tefur sendingar. Í Skotlandi hefur verið blómstrandi útflutningur á ferskum skelfiski til Frakklands. Lostæti, sem Frakkar meta að verðleikum.
Líf skosks skelfiskútflytjanda breytist í martröð
Ian Blackford er þingflokksformaður Skoska þjóðarflokksins á breska þinginu. Í fyrirspurnartíma forsætisráðherra á miðvikudaginn rakti Blackford raunir eins skosks fiskútflytjanda.
Líf skelfiskútflytjanda í Lochaber, kjördæmi Blackfords, er nú algör martröð, sagði Blackford. Eftir að hlaða skelfiski á flutningabílinn á mánudaginn, eins og hann hefur gert í 35 ár, komu upp alls kyns hindranir sem þýddi að sending upp á 40 þúsund pund, sjö milljónir króna, tafðist og eyðilagðist þá. Tekjumissir fyrir hundrað skoskar fjölskyldur.
Hvar er hafsjór Brexit-tækifæranna sem var lofað?
Hvar er þessi hafsjór tækifæri, sem forsætisráðherra og skoskir flokksbræður hans lofuðu? spurði Blackford.
Forsætisráðherra svaraði, ríkisstjórnin myndi leggja 100 milljónir punda í sjávarútveg í Skotlandi og annars staðar. Hermdi síðan upp á Blackford og flokk hans, sem forsætisráðherra af ásetningi kallar stöðugt röngu nafni, að þeirra galni ásetningur væri að brjóta upp Bretland og draga Skotland aftur inn í ESB. Fáránlegt að kasta þannig Brexit-tækifærum fyrir borð, sagði forsætisráðherra.
Skoskur sjávarútvegur tapar 180 milljónum króna á dag
Blackford hnykkti á að skoskur sjávarútvegur tapaði milljón pundum, tæplega 180 milljónum króna, á dag. Stór hluti flotans væri bundin við bryggju og þeir sem veiddu lönduðu frekar í Danmörku til að losna við Brexit-skriffinnskuna. Á því tapar skosk fiskvinnsla.
ESB styrkir sinn sjávarútveg
Evrópusambandið hefur sett fimm milljarða evra í Brexit-sjóð, nú ljóst að Írar fengju einn milljarð þaðan – hvenær fengi skoskur sjávarútvegur eitthvað viðlíka og hvaða bætur fengi útflytjandinn í Lochaber, spurði Blackford. Forsætisráðherra svaraði ekki spurningunni en réðst á stefnu Skoska þjóðarflokksins. Flokknum nær að beita kröftunum gegn Covid-farsóttinni.
Af hverju er ekki róið?
Fleiri þingmenn hafa í vikunni krafið forsætisráðherra svara um sjávarútveginn. Hillary Benn þingmaður Verkamannaflokksins spurði forsætisráðherra hvernig stæði á því að breski flotinn væri bundinn við bryggju í stað þess að stunda veiðar og fékk heldur fálmkennt svar.
Forsætisráðherra sagðist skilja örvæntingu sjómanna og annarra í samfélaginu sem ættu við að glíma, að sínu mati, tímabundna örvæntingu vegna alls konar vandamála. Þeir fengju bætur. – Þó enn ekkert áþreifanlegt um hvernig bætur eða hvenær.
Fiskurinn örugglega hamingjusamur að vera breskur
Í þinginu viðraði íhaldsþingmaðurinn Jacob Rees-Mogg og ákafur Brexit-sinni sína skoðun á vanda sjávarútvegsins. Lykilatriðið er, sagði Rees-Mogg, að við náðum stjórn á fiskinum okkar sem er því betri og hamingjusamari en áður. – Ummæli sem þingforseti var ekki viss um að hægt væri að sannreyna.
Tónninn í forsætisráðherra eflir sjálfstæðisþrá Skoska þjóðarflokksins
Í takt við vaxandi Brexit-vanda skoskrar sjávarútgerðar vaxa vinsældir Skoska þjóðarflokksins. Skoðanakannanir sýna að við blasir met kosningasigur hans í maí. Tónn forsætisráðherra til Skota virðist fremur hjálpa sjálfsstæðisöflum í Skotlandi en styrkja einingu Bretlands.