
Tuttugu ára dómur Park staðfestur í hæstarétti
Ákæran var birt eftir einhver fjölmennustu mótmæli í sögu Suður-Kóreu. Hún var í fyrstu dæmd í þrjátíu ára fangelsi fyrir mútuþægni og misbeitingu valds. Nokkrum áfrýjunum, endurupptöku og fleiri áfrýjunum síðar var dómurinn mildaður í tuttugu ár. Þetta var í annað sinn sem málið fór fyrir hæstarétt, og er lokaniðurstaðan í máli forsetans fyrrverandi.
Sjálf hefur Park ekki látið sjá sig í dómssal. Hún hlaut einnig tveggja ára dóm fyrir brot á kosningalögum, sem bætist ofan á tuttugu ára dóminn fyrir spillingu. Hún þarf því að dvelja í fangelsi í 22 ár, og verður komin á níræðisaldur að afplánun lokinni.
Málið snerist um tengsl stórfyrirtækja og stjórnmálamanna í Suður-Kóreu. Park var sökuð um að hafa þegið mútur frá viðskiptaveldum á borð við Samsung, gegn því að stjórnvöld færu mjúkum höndum um fyrirtækin.
Allir fjórir núlifandi, fyrrverandi forsetar Suður-Kóreu hafa verið dæmdir fyrir glæpi.