Mynd: Jim Lo Scalzo - EPA

Trump fordæmir árásarmennina
14.01.2021 - 00:35
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir þá sem réðust inn í þinghúsið í Washington ekki eiga heima í hópi stuðningsmanna sinna. Hann segist fordæma slíka hegðun, og enginn sem styðji hann geti jafnframt tekið þátt í ofbeldi gegn lögreglumönnum, líkt og viðgekkst við þinghúsið í síðustu viku. Þetta kemur fram í ræðu forsetans sem birt var á samfélagsmiðlum Hvíta hússins í gærkvöld.
Trump segir þá sem tóku þátt í árásinni þurfa að svara til saka fyrir gjörðir sínar. Hann segir pólitískt ofbeldi hafa gengið of langt, bæði frá stuðningsmönnum Demókrata og Repúblikana. Aldrei sé hægt að réttlæta ofbeldi.
Árásin á þinghúsið í síðustu viku var gerð eftir ræðu Trumps í Washington. Þar sagði hann stuðningsmönnum sínum að þeir yrðu að berjast af fullri hörku fyrir hann. Ræðan í kvöld var birt skömmu eftir að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti að ákæra hann fyrir embættisglöp. Honum er gefið að sök að egna stuðningsmenn sína til árásarinnar á þinghúsið.