Trump fordæmir árásarmennina

epaselect epa08923457 Supporters of US President Donald J. Trump stand by the door to the Senate chambers after they breached the US Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters stormed the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: Jim Lo Scalzo - EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir þá sem réðust inn í þinghúsið í Washington ekki eiga heima í hópi stuðningsmanna sinna. Hann segist fordæma slíka hegðun, og enginn sem styðji hann geti jafnframt tekið þátt í ofbeldi gegn lögreglumönnum, líkt og viðgekkst við þinghúsið í síðustu viku. Þetta kemur fram í ræðu forsetans sem birt var á samfélagsmiðlum Hvíta hússins í gærkvöld. 

Trump segir þá sem tóku þátt í árásinni þurfa að svara til saka fyrir gjörðir sínar. Hann segir pólitískt ofbeldi hafa gengið of langt, bæði frá stuðningsmönnum Demókrata og Repúblikana. Aldrei sé hægt að réttlæta ofbeldi. 

Árásin á þinghúsið í síðustu viku var gerð eftir ræðu Trumps í Washington. Þar sagði hann stuðningsmönnum sínum að þeir yrðu að berjast af fullri hörku fyrir hann. Ræðan í kvöld var birt skömmu eftir að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti að ákæra hann fyrir embættisglöp. Honum er gefið að sök að egna stuðningsmenn sína til árásarinnar á þinghúsið.