Dr. Gunni, Gunnar Lárus Hjálmarsson, hefur áður gefið út bækurnar Eru ekki allir í stuði? og Stuð vors lands um sögu íslenskrar dægurtónlistar. Út frá þeirri útgáfu kom bókin Blue Eyed Pop út á ensku árið 2012 og var seld í verslunum hérlendis auk þess sem eintök voru send út til sölu. Fyrir rúmlega þremur árum síðan var Dr. Gunni við vinnu í verslun á Laugavegi þegar kínverskur ferðamaður labbaði inn með Blue Eyed Pop meðferðis. Þetta reyndist vera Sean White, kínverskur bókaútgefandi, sem hafði keypt bókina í Lucky Records og þar verið bent á að höfundur hennar væri að vinna í næsta nágrenni.
„Það var nú skemmtileg tilviljun að það var að vinna þarna með mér í Fjallakofanum kínversk stelpa. Því honum Sean var mikið í mun að sanna að hann væri enginn vitleysingur. Hann lét hana fara inn á einhverjar síður þar sem mátti lesa um hans afrek í bókaútgáfu og sínum meningarstörfum,” segir Dr. Gunni um sín fyrstu kynni af Sean White. Þessi óvænti gestur vildi ólmur koma á samstarfi og var strax með hugmyndir kínverska útgáfu af þessari sögu. „Það eru viðtöl þarna við Megas og Bubba á kínversku sem við munum aldrei vita hvað stendur í,” segir Dr. Gunni.
Árið 2018 var Dr. Gunna svo boðið í heimsókn til Kína. Þar var hann leiddur á fundi með alls kyns borgarstjórum og er hann í dag opinber vinur fjölda borga í landinu. „Ég sat einhverjar veislur við hringborð þar sem sátu 20 Kínverjar og ég vissi ekkert hvað var í gangi. Svo var bara étið,” segir Dr. Gunni sem fékk alveg nóg af sæbjúgum í þessari ferð, enda var það yfirleitt forrétturinn.
Mörg skemmtileg atvik komu upp við útgáfuna og þá sérstaklega þegar íslensku hljómsveitanöfnin voru öll þýdd yfir á kínversku. Þýðendurnir voru til dæmis á því að Sálin hans Jóns míns hlyti að heita Stalín en ekki Sálin.
Fyrsta upplag bókarinnar kemur út í 5000 eintökum sem Dr. Gunni segir þó ekki vera mikið á kínverskan mælikvarða. „Eins og það kæmu tvö eintök hér,” segir hann. Mögulega verður upplagið þó stækkað en síðasta bók sem Sean White gaf út endaði í um 300 þúsund eintökum. Markaðsstarf vegna útgáfunnar er þegar farið af stað og hefur Dr. Gunni þegar farið á fund forseta enda útgefandinn æstur í myndir af fyrirfólki halda á bókinni.
Dr. Gunni fjallaði um útgáfuna í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.