„Kann að koma til frekari rýmingar á Seyðisfirði“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Eftir yfirferð ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands á Seyðisfirði í dag kom í ljós að ekki var um hreyfingar á jarðlögum að ræða. Af öryggisástæðum var hreinsunarstarf stöðvað rétt fyrir hádegi í dag eftir að tilkynning barst um að sprunga í skriðusárinu hefði stækkað.

Ekki talin hætta á frekari skriðuföllum

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Almannavarnir sendu frá sér nú á fimmta tímanum. Þar segir að ekki sé hætta á frekari skriðuföllum. „Eftir yfirferð ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands, á fjarlægðarmælingum á speglum, var ljóst að ekki var um hreyfingar á jarðlögum að ræða en við vettvangskönnun var ljóst að hrunið hafði úr börmum sprungunnar og hún orðið greinilegri. Ekki var því talin frekari hætta á skriðuföllum út frá þessum athugunum,“ segir í tilkynningu. 

Fylgjast vel með stöðunni

Þá segir að vel verði fylgst með Seyðisfirði og Eskifirði næstu daga vegna úrkomu en talsverðri rigningu eða slyddu er spáð á Seyðisfirði eftir miðnætti aðfaranótt laugardags. „Vegna úrkomunnar á laugardag kann að koma til frekari rýmingar á Seyðisfirði. Staðan verður endurmetin á morgun og kynnt,“ segir í tilkynningu. 

Vel fylgst með Eskifirði

Þá er vel fylgst með hlíðinni ofan Eskifjarðar af hálfu ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands. Þar er spáð úrkomu seint á föstudagskvöld en það dregur úr henni um kl. 14 á laugardag. Ekki þykir ástæða til viðbragða vegna úrkomunnar þar.

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Á Seyðisfirði í dag