Mynd: EPA-EFE - EPA

Kaja Kallas, leiðtogi Umbótaflokksins í Eistlandi, verður fyrst kvenna til að gegna embætti forsætisráðherra, ef þing landsins fellst á tilnefningu hennar. Samsteypustjórn mið- og hægriflokka féll í gær þegar Juri Ratas forsætisráðherra baðst lausnar eftir að upplýst var að flokkur hans, Miðflokkurinn, hefði verið tekinn til rannsóknar vegna spillingar í tengslum við byggingaframkvæmdir í höfuðborginni Tallinn.
Kaja Kallas er dóttir Siims Kallas, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands. Kersti Kaljulaid, forseti landsins, sagði þegar hún greindi frá tilnefningunni í dag að hún og eistneska þjóðin væntu þess að fljótlega yrði mynduð öflug ríkisstjórn sem tæki á COVID-19 farsóttinni og efnahagsvandamálum landsins af myndarbrag.