
Halla Signý vill leiða lista Framsóknar í NV-kjördæmi
„Það hefur verið krefjandi en sérlega ánægjulegt að starfa sem þingmaður NV kjördæmis og er ég staðráðin í að leggja áfram alla mína krafta á vogarskálarnar til þess að vinna að stefnumálum Framsóknar,“ skrifar Halla Signý í pistli á Facebook.
Halla Signý skipar nú annað sæti Framsóknarflokksins á eftir Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. Hann sækist eftir efsta sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður.
„Með mína reynslu, þekkingu og þau verkefni í farteskinu sem ég hef unnið að á yfirstandandi kjörtímabili tel ég mig þess búna að taka við keflinu og leiða lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.“
Halla Signý mun etja kappi við Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjón á Norðurlandi vestra, um oddvitasæti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann tilkynnti framboðið í gær, eftir að Ásmundur Einar flutti sig um set.