
Fyrrverandi ríkisstjóri í Michigan ákærður
Snyder, sem var ríkisstjóri Michigan á árunum 2011-2019, er fyrstur ríkisstjóra í Michigan sem ákærður er fyrir brot í embætti. Málið snýst um ákvörðun sem tekin var 25. apríl 2014 þegar framkvæmdir voru við nýja vatnsleiðslu til Flint-borgar frá Huron-vatni.
Í sparnaðarskyni var þá ákveðið að nota tímabundið vatn úr Flint-ánni sem neysluvatn fyrir borgarbúa. Vatnið fór nánast óhreinsað inn í kerfið sem leiddi meðal annars til að blý losnaði úr gömlum leiðslum sem svo leiddi til umhverfisspjalla og heilsubrests hjá fólki.
Þá var ekki nægilegur klór í vatninu til að drepa bakteríur á borð við Legionella, sem veldur hermannaveiki og veiktust margir af henni.
Þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir og mótmæli gerðu yfirvöld ekkert í málinu fyrr en næstum tveimur árum síðar þegar læknir benti á að talsvert magn af blýi hefði greinst í börnum í borginni.
Íbúar Flint fagna ákærunni á hendur Snyder og Croft, en margir telja þá sleppa vel. Þeir eiga fyrir höfði sér eitt þúsund dollara sekt, jafnvirði um 130.000 króna, og allt að eins árs fangelsi. Þá hafa yfirvöld fallist á bótagreiðslur til íbúa að jafnvirði um 82 milljarða króna, en formlega á eftir að ganga frá því.