Sakborningar fluttir í réttarsal í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Í morgun hófust í Kambódíu réttarhöld yfir tugum stjórnarandstæðinga sem ákærðir eru fyrir undirróður og landráð. Réttarhöldin fara fram fyrir luktum dyrum.
Þau tengjast meðal annars tilraunum stjórnarandstöðuleiðtogans Sams Rainsy til að snúa aftur heim fyrir tveimur árum, en hann hefur dvalið í útlegð í Frakklandi síðan 2015. Margir sakborningar eru ákærðir fyrir að deila stuðningsyfirlýsingum við Rainsy á samfélagsmiðlum.
Sakborningar eru félagar í Endurreisnarflokknum sem bannaður var fyrir kosningarnar í landinu 2018. Kem Sokha, leiðtogi flokksins, og margrir flokksfélagar hans voru þá handteknir.
Þjóðarflokkur Hun Sen, forsætisráðherra Kambódíu, hlaut öll þingsætin í kosningunum 2018, en Hun Sen hefur verið við völd í Kambódíu síðan í desember 1984.