Engin merki um að bóluefnið sé skaðlegt á meðgöngu

14.01.2021 - 08:55
Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
„Það er ekkert sem bendir til þess að bóluefnið við COVID-19 sé skaðlegt fyrir óléttar konur,“ segir Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir og prófessor í smitsjúkdómum, í samtali við fréttastofu. Hins vegar séu vísbendingar um að bóluefnið geti farið illa í þá sem hafa bráðaofnæmi, og þá sem hafa ofnæmi fyrir sérstökum efnum í bóluefninu. 

Aðgæsla þegar kemur að barnshafandi konum

„Það er almennt verklag þegar verið er að nota ný lyf eða bóluefni að sýna sérstaka aðgæslu þegar kemur að barnshafandi konum,“ segir Magnús. Það sé aðallega vegna þess að ekki hafi verið gerðar rannsóknir á óléttum konum. „Þetta er fyrst og fremst varúðarráðstöfun og íhaldssemi. Það er ástæðan, það er ekki vegna þess að fólk sjái að þarna sé einhver hætta á ferðum,“ bætir hann við. 

Sums staðar hefur verið mælt með því að bíða með að bólusetja óléttar konur, til dæmis í Bretlandi, en í Bandaríkjunum hefur ákvörðunin verið sett í hendur kvennanna sjálfra. 

Á vefsíðu sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna segir að nú þegar liggi fyrir gögn úr rannsóknum á dýrum og frumum. Þar segir til dæmis að ekkert bendi til þess að bóluefni bandaríska lyfjaframleiðandans Moderna hafi hættuleg áhrif á þungaðar rottur. Nú sé fylgst vel með konum sem hafi verið bólusettar og síðar komist að því að þær væru þungaðar. Magnús segir að það sé einmitt þannig sem þekking á áhrifum efnisins á þungaðar konur aukist með tímanum.

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld mæla með því að þungaðar konur hafi eftirfarandi atriði til hliðsjónar þegar þær taka ákvörðun um bólusetningu: líkurnar á því að þær verði útsettar fyrir smiti, hvort þær séu í áhættuhópi fyrir COVID-sýkingu, og allar þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um virkni bóluefna og þá vernd sem þau veita.

Fólk með bráðaofnæmi ráðfæri sig við lækni

Magnús segir að fólk sem hafi bráðaofnæmi, eða sögu um slíkt, þurfi að ráðfæra sig við ofnæmislækni um bólusetningu.

Það sé ekki útséð um að fólk með bráðaofnæmi fái bólusetningu, en að það þurfi að skoða það sérstaklega. „Innihaldslýsingin á bóluefnunum er býsna skýr og það ættu ekki að vera nein önnur efni í bóluefninu en þar segir. En það eru notuð efni til að pakka þessu mRNA inn og verja það fyrir niðurbroti líkamans. Það eru fituefni sem mögulega geta kallað fram ofnæmisviðbrögð,“ segir hann. Einhverjir kunni til dæmis að hafa ofnæmi fyrir efninu polyethylene glycol, sem bóluefnin innihalda, eða Polysorbate, en að það séu sennilega fáir.  „Það er allavega talað um að þeir sem hafi fengið alvarlegt ofnæmi séu líklegri til að sýna ofnæmisviðbrögð við efnunum,“ segir Magnús. 

Ekki mælt gegn bóluefni fyrir ónæmisbælda

Magnús segist ekkert hafa séð um að bóluefnið fari illa í fólk með ónæmisbælandi sjúkdóma eða aðra undirliggjandi sjúkdóma. „Það er einmitt fólkið sem við erum búin að vera að reyna að vernda sérstaklega, og er í forgangshópi fyrir bólusetningu, til dæmis þeir sem hafa sykursýki eða HIV, sjúkdóma sem veikja ónæmiskerfið, eða eru á ónæmisbælandi lyfjum, eins og sterum,“ segir hann.

Óskynsamlegt að bólusetja þá sem hafa sýkst

„Það má deila um það hvort fólk sem hefur sýkst af COVID-19 eigi að fá bóluefni,“ segir Magnús. Þótt það sé ekki skaðlegt, og ekkert sérstaklega mælt gegn því, sé það fyrst og fremst óskynsamleg ráðstöfun á bóluefninu. Þegar Magnús er spurður hvort mótefnið sem bóluefnið framkallar sé sambærilegt því sem sýking framkallar segir hann að þeir sem hafi sýkst af COVID-19 hafi myndað mun fleiri mótefni: „Við náttúrulega sýkingu myndar líkaminn fjöldamörg mótefni gegn veirunni, vegna þess að veiran framleiðir ýmiss konar prótein. Hinn bólusetti myndar bara mótefni gegn þessu sérstaka broddpróteini. Maður sér greinilegan mun á þessu,“ segir hann. 

Spurður hvort það þýði að sá sem hafi sýkst hafi myndað sterkari vörn gegn veirunni segir Magnús að mótefnið sem bóluefnið framkalli sé mjög sterkt. Það bindist fast við veiruna og hafi mjög mikil verndandi áhrif gegn sjúkdómnum. „En vegna þess að þetta er svo nýr sjúkdómur vitum við ekki nákvæmlega hvaða þættir í ónæmissvarinu spá fyrir um langtímavörn. Það er rannsóknarefni dagsins í dag,“ segir hann.