„Ekki boðlegt að vera í þessu limbói“

Mynd með færslu
 Mynd: Síldarvinnslan
Starfsfólk frystihúss Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði fékk far með togaranum Gullveri inn í bæinn eftir að byggingin var rýmd í dag. Rýmingin kom til eftir ábendingu frá íbúa þess efnis að sprunga í stóru skriðunni hefði gliðnað. Framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar kallar eftir skýrari svörum frá Almannavörnum.

Rýming eftir ábendingu um að skriðan hefði gliðnað

Lögreglan á Austurlandi sendi frá sér tilkynningu skömmu fyrir hádegi í dag eftir að ábending frá íbúum á Seyðisfirði barst þess efnis að sprunga í stóru skriðunni hefði gliðnað. Því var talin ástæða til að rýma vinnusvæðið. Frystihús og fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar voru á meðal bygginga sem voru rýmdar, þó svo að byggingarnar væru utan áhrifasvæðis. Þar hófst vinnsla í gær í fyrsta sinn eftir skriðuföllin í desember.

„Höfum ekki fengið neitt samtal við Almannavarnir“

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri vinnslunnar, segir að nú þurfi að endurmeta stöðuna.  „Við ákváðum að rýma frystihúsið í samráði við lögregluna en við þurfum að fá skýrari svör. Það er ekki boðlegt að vera í þessu limbói, hvorki fyrir okkur né starfsmenn. Við höfum ekki fengið neitt samtal við Almannavarnir,“ segir Gunnþór.

Fólk ferjað sjóleiðina

Til þess að komast frá frystihúsinu og inn í bæ þarf að fara í gegnum rýmingarsvæðið og var því brugðið á það ráð að ferja fólk sjóleiðina með togaranum Gullveri. „Við vorum með 50 starfsmenn á svæðinu en það var ekkert vandamál.“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Seyðisfjörður í dag