Ekkert ákall frá almenningi um að ríkið selji banka

14.01.2021 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það á greinilega bara að henda þessu í gegn af öllu afli og það liggur mikið á hjá þeim,“ segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, um fyrirhugaða sölu á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka. Drífa sat í gær fund með fjárlaganefnd Alþingis og efnahags- og viðskiptanefnd. „Það á að klára þetta fyrir kosningar og mér líst ekki á það," segir hún í samtali við fréttastofu.

Fjármálaráðherra stefnir að því að hefja söluferli á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir lok mánaðar og að útboð verði eftir fimm mánuði.

„Það er ekkert ákall frá almenningi um að selja þetta. Ákallið kemur frá fjármagnsöflunum. Og það eru engin sérstök rök fyrir því að gera þetta núna,“ segir Drífa og bætir við að almenningi sé hins vegar mikið í mun að hefja umræðu um samfélagsbanka. „Það væri banki í eigu almennings og arðurinn myndi renna til almennings,“ segir hún. „Það er ákall um slíkt en ekki að ríkið fari að selja eigur almennings.“ 

En hvað mælir gegn því að gera þetta núna?

„Í fyrsta lagi er hraðinn undarlegur. Það ríkir ekki traust til þess að fara í þetta núna, maður finnur bara að fólk vantreystir þessu, enda bara tíu ár frá hruni. Upptakturinn að hruni var einkavæðing bankanna,“ segir Drífa.

Hún segir ASÍ tilbúið í umræðu um bankakerfið. „Það er sterkt ákall almennings að vera með einn traustan banka í almannaeigu. Við viljum nálgast umræðuna út frá því hvernig við getum tryggt það og þá getum við tekið sem afleiðu þá umræðu hvort eigi að selja hlut ríkisins í öðrum bönkum,“ segir hún. 

Heldurðu að þessi breyting á eignarhaldinu hafi áhrif á hagsmunabaráttu á Íslandi?

„Það fer eftir því hverjir eru kaupendurnir. Það væri hættulegt að taka lán úr öðrum bönkum til að fjármagna kaup á þessum, þá erum við komin með eignatengsl sem eru ekki skynsamleg. Við höfum reynslu af því. En það er augljóst að það er ofboðslegur þrýstingur að gera þetta,“ segir hún. 

Hvað viljið þið að verði gert núna?

„Það þarf að snúa umræðunni við. Hvað liggur á og af hverju? Það er fullkomin óvissa framundan og við vitum ekki hvernig þessi kreppa fer. Það verða tilfærslur á eignum. Er skynsamlegt að selja ríkisbanka á sama tíma og þetta er að gerast?,“ segir hún.

En er þá ekki líka hægt að spyrja sig hvort það sé skynsamlegt fyrir ríkið að eiga banka í svona mikilli óvissu?

„Ja, ég meina hvert hefur verið vandamálið við að eiga banka síðustu tólf ár. Hefur verði vantraust? Nei, frekar að það hafi aukið traust til banka að ríkið eigi þá,“ segir Drífa.