Bíddu, selja Íslandsbanka segirðu?

14.01.2021 - 13:28
Mynd: Jóhannes Jónsson / Samsett mynd
Af hverju núna? Hvenær á maður eiginlega að selja banka? Og hvað óttast fólk? Af hverju þessi hræðsla við að ríkið selji banka?

Í desember féllst Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á Íslandsbanka. En af hverju núna? Hvenær á maður eiginlega að selja banka?

Fyrirhuguð sala á Íslandsbanka var örskýrð í þættinum Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

Spólum fyrst til baka. Ríkið eignaðist Íslandsbanka að fullu árið 2015, sem hluta af svokölluðu stöðugleikaframlagi. Ég ætla ekki að útskýra stöðugleikaframlög ítarlega en í stuttu máli voru þau afleiðing samkomulags milli kröfuhafa og ríkisins, sem hugðist leggja á sérstakan stöðugleikaskatt næðust ekki samningar.. 

Skiptar skoðanir eru um hvort, hvenær og hvernig ríkið eigi að selja Íslandsbanka. Það hefur lengi staðið til og í lok janúar í fyrra sagðist Bjarni Ben vilja hefja söluferlið á þessu kjörtímabili, sem lýkur í haust. Í maí var áformunum hins vegar frestað vegna efnahagsástandsins í kórónuveirufaraldrinum.

Í desember sagði Bjarni svo að rétti tíminn væri kominn. Hann benti á að salan gæti mildað höggið af kórónuveirunni og að salan myndi auðvelda ríkinu að fjármagna áframhaldandi aðgerðir fyrir fólk og fyrirtæki.

Þá benti Bjarni á í kvöldfréttum RÚV að það væri gott fyrir hlutabréfaverð að vextir væru lágir og það gæti hjálpað til við söluna.

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, tók í sama streng á Twitter, benti á góða stöðu á mörkuðum og sagði að íslensku bankarnir tveir sem eru á markaði, Arion og Kvika, hefðu nánast aldrei verið meira virði.

Guðrún Johnsen, lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, sagði hins vegar í kvöldfréttum RÚV að það kæmi á óvart að ríkið vildi selja bankann núna. Hún benti á að hluti lána Íslandsbanka væri til fólks og fyrirtækja sem hefðu fengið greiðslufrest vegna efnahagsástandsins og að það skapi óvissu um virði þeirra eigna. 

Óvissa um eignir endurspeglar verðið, að mati Guðrúnar. Hún sagði því líkur á að ríkið fengi ekki raunverulegt verðmæti bankans úr sölunni.

En hvað óttast fólk? Af hverju þessi hræðsla við að ríkið selji banka? 

Salan á Landsbankanum og Búnaðarbankanum, sem hófst árið 2002, er umdeild, meðal annars vegna þess hversu hratt bankarnir voru seldir. Steingrímur Ari Arason sagði sig úr einkavæðinganefnd Landsbankans og sagðist aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum og árið 2017 komst rannsóknarnefnd Alþingis að því að stjórn¬völd hefðu verið blekkt við sölu Búnaðarbankans.

Þá vitum við það. Og að lokum: Hvenær verður Íslandsbanki seldur?

Stefnt er að því að hefja sölu á fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir lok janúar og að útboð fari fram í sumar. Meira verði svo selt síðar.