Ísland leikur í F-riðli mótsins og er fyrirfram talið með sterkasta liðið í þeim riðli ásamt Portúgal. Þar að auki eru Alsír og Marokkó í riðli Íslands en þrjú efstu liðin fara áfram í milliriðil.
Alsír hefur keppt reglulega á heimsmeistaramótum síðustu áratugina en ekki komist upp úr riðlinum frá árinu 2001. Marokkó mætir aftur til leiks á HM eftir fjórtán ára fjarveru en liðið hefur aldrei komist upp úr riðli sínum. Portúgal hefur best náð 12. sæti á heimavelli 2003 en það er líka síðasta heimsmeistaramót sem Portúgalar kepptu á. Portúgalar hafa hins vegar tekið miklum framförum síðustu ár og náðu til að mynda 6. sæti á EM 2020.
F-riðillinn á HM:
Lið | Fjöldi heimsmeistaramóta | Besti árangur á HM |
Alsír | 14 (síðast 2015) | 13. sæti 2001 |
Ísland | 20 (síðast 2019) | 5. sæti 1997 |
Marokkó | 6 (síðast 2007) | 17. sæti 1999 |
Portúgal | 3 (síðast 2003) | 12. sæti 2003 |
Ísland er á meðal þátttökuþjóða í 21. sinn en Íslendingar voru fyrst með í Austur-Þýskalandi 1958. Þá varð niðurstaðan 10. sæti af 16 liðum en besti árangur Íslands náðist í Kumamoto á HM í Japan 1997 þegar íslenska liðið varð í 5. sæti.
Á HM í Egyptalandi taka lið stig með sér í milliriðla úr viðureignum gegn öðrum liðum sem fara einnig í milliriðla úr sama riðli. Líklegt verður að teljast að Ísland hafi sigur gegn Alsír og Marokkó sem gerir leikinn gegn Portúgal í kvöld afar mikilvægan.
Leikir Íslands í F-riðli á HM:
- Í kvöld klukkan 19:30: Ísland - Portúgal
- Laugardaginn 16. janúar klukkan 19:30: Ísland - Alsír
- Mánudaginn 18. janúar klukkan 19:30: Ísland - Marokkó
Ísland keppir nú á sínu fimmta heimsmeistaramóti í röð en íslenska liðið náði ekki að tryggja sér þátttökurétt á HM í Króatíu 2009. Aðeins einu sinni hefur Ísland verið á meðal tíu efstu á HM frá 2011.
Árangur Íslands á síðustu fimm heimsmeistaramótum:
2011 í Svíþjóð | 6. sæti |
2013 á Spáni | 12. sæti |
2015 í Katar | 11. sæti |
2017 í Frakklandi | 14. sæti |
2019 í Danmörku og Þýskalandi | 11. sæti |
Aron Pálmarsson, leikmaður Barcelona, þurfti að draga sig úr hópnum í aðdraganda HM vegna meiðsla. Þá hætti markahæsti landsliðsmaður handboltasögunnar, Guðjón Valur Sigurðsson, eftir EM á síðasta ári. Ísland verður því án tveggja leikmanna sem hafa verið burðarásar síðustu ár.
Hópur Íslands á HM:
Markmenn:
- Ágúst Elí Björgvinsson, KIF Kolding, 33 landsleikir
- Björgvin Páll Gústavsson, Haukum, 231 landsleikur
- Viktor Gísli Hallgrímsson, GOG, 19 landsleikir
Vinstri hornamenn:
- Bjarki Már Elísson, Lemgo, 73 landsleikir
- Oddur Gretarsson, Balingen-Weilstetten, 20 landsleikir
Vinstri skyttur:
- Elvar Örn Jónsson, Skjern, 37 landsleikir
- Ólafur Andrés Guðmundsson, IFK Kristianstad, 125 landsleikir
Miðjumenn:
- Gísli Þorgeir Kristjánsson, Magdeburg, 26 landsleikir
- Janus Daði Smárason, Göppingen, 48 landsleikir
- Magnús Óli Magnússon, Val, 6 landsleikir
Hægri skyttur:
- Alexander Petersson, Rhein-Neckar Löwen, 182 landsleikir
- Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg, 49 landsleikir
- Kristján Örn Kristjánsson, PAUC-Aix, 8 landsleikir
- Viggó Kristjánsson, Stuttgart, 13 landsleikir
Hægri hornamenn:
- Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði, Bergischer HCC, 116 landsleikir
- Sigvaldi Björn Guðjónsson, Vive Kielce, 30 landsleikir
Línumenn/varnarmenn:
- Arnar Freyr Arnarsson, MT Melsungen, 54 landsleikir
- Elliði Snær Viðarsson, Gummersbach, 7 landsleikir
- Kári Kristján Kristjánsson, ÍBV, 146 landsleikir
- Ýmir Örn Gíslason, Rhein-Neckar Löwen, 44 landsleikir
Aðeins mega 16 leikmenn vera á skýrslu í hverjum leik. Gegn Portúgal í kvöld er leikjahæsti leikmaður hópsins, Björgvin Páll Gústavsson, utan hóps auk Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Magnúsar Óla Magnússonar og Kára Kristjáns Kristjánssonar sem hvíla einnig í kvöld.
RÚV er með teymi í Egyptalandi en Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður og fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, lýsir öllum leikjum Íslands beint í sjónvarpi. Þá eru leikjum Íslands jafnframt lýst á Rás 2.
Kristjana Arnarsdóttir stýrir svo HM-stofunni á RÚV en sérfræðingar þar verða Logi Geirsson og Arnar Pétursson.
Hér má sjá allar beinar útsendingar sem fram undan eru á RÚV og RÚV 2.