Mynd: EPA-EFE - EPA

Pence ætlar ekki að víkja Trump úr embætti
13.01.2021 - 02:22
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, greindi leiðtogum fulltrúadeildar Bandaríkjaþings frá því í gærkvöld að hann styðji ekki þá hugmynd að virkja 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna. Viðaukinn kveður á um lausn forsetans frá embætti vegna vanhæfni.
Pence færði Nancy Pelosi, þingforseta fulltrúadeildarinnar, skilaboð þessa efnis seint í gærkvöld. Hann sagði að sér þætti ekki rétt af hans hálfu og ráðherra í ríkisstjórn Bandaríkjanna að virkja 25. viðaukann þegar aðeins átta dagar væru eftir af embættistíð forsetans. Honum þætti það hvorki þjóna hagsmunum þjóðarinnar né í anda stjórnarskrárinnar.
Skilaboðin bárust rétt áður en atkvæðagreiðsla hófst um frumvarp þar sem kallað yrði eftir því að Pence virkjaði viðaukann og viki Trump úr embætti vegna innrásarinnar í þinghúsið í síðustu viku. Í dag verða umræður og atkvæðagreiðsla um ákæru á hendur forsetanum fyrir að hvetja til árásarinnar á þinghúsið.