Lokuðu Krónunni á Reyðarfirði eftir meint sóttvarnabrot

13.01.2021 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á Austurlandi hefur nú til rannsóknar meint brot á sóttvarnalögum í verslun Krónunnar á Reyðarfirði í gær. Þá komu tveir í verslunina sem að sögn sjónarvotta áttu að vera í sóttkví. Verslunarstjóri segir samfélagið lítið og auðvelt að finna út hverjir eiga að vera í sóttkví.

Verslunin öll sótthreinsuð og opnuð á ný

Það var skömmu fyrir hádegi í gær sem starfsfólk Krónunnar varð vart við fólk sem það taldi að ætti að vera í sóttkví eftir komu frá útlöndum. Í kjölfarið var kallað til lögreglu, fólkinu vísað út og verslunin sótthreinsuð. Austurfrétt.is greindi fyrst frá málinu. María Guðrún Jósepsdóttir er verslunarstjóri Krónunnar.

„Komu til landsins á föstudaginn"

„Í rauninni þá komu bara tveir einstaklingar inn í verslunina sem eiga að vera í sóttkví. Þegar það uppgötvast höfum við samband við lögregluna og spyrjum að því hvaða skref við tökum í svona aðstæðum. Og okkur var bara tilkynnt að við þurftum að sótthreinsa alla verslunina. Okkar yfirmenn báðu svo í framhaldi um að búðinni yrði lokað á meðan. Það var í rauninni bara staðfest að af því að þau komu til landsins á föstudaginn að þau áttu að vera sóttkví enn þá," segir María.   

En hvernig vissuð þið að þetta fólk ætti að vera í sóttkví?

„Þetta er náttúrlega bara ofsalega lítið bæjarfélag og það þekkja allir alla hérna og einfalt að finna það út."

Lögreglan með málið í rannsókn

Samkvæmt upplýsingum frá Kristján Ólafi Guðnasyni, yfirlögregluþjóni á Austurlandi, miðar rannsókn málsins vel. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. 

Austurland sloppið vel þriðju bylgju

Austurland hefur að mestu leyti verið laust við smit. Fimm íbúar, sem búsettir eru í landsfjórðunginum eru nú hins vegar í einangrun, samkvæmt covid.is. Fram hefur komið í færslum frá aðgerðarstjórn á Austurlandi síðustu daga að þessir fjórir hafi allir greinst við skimun á landamærunum. Íbúar hafa verið hvattir til að gæta fyllstu varkárni og fylgja persónubundnum sóttvörnum.

Mynd með færslu
 Mynd: Fjardabyggd.is - RÚV
Krónan á Reyðarfirði