Greint er frá þessu á vef Cabo Verde no Mundial í kvöld. Vefurinn birtir þrjár myndir því til staðfestingar af leikmönnum liðsins við brottfararhlið á flugvelli á leið upp í flugvél til Egyptalands. Sex leikmenn Grænhöfðaeyja eru smitaðir af COVID-19 og fjórir úr starfsliðinu.
Vangaveltur komu upp í kjölfarið hvort liðið yrði með á HM. Í gær helltust Tékkland og Bandaríkin úr lestinni vegna fjölda smita. Norður-Makedónía og Sviss komu inn á mótið í staðinn sem varaþjóðir. Hollendingar hafa beðið á hliðarlínunni vegna máls Grænhöfðaeyja, en Holland er þriðja varaþjóð.
Í samtali við RÚV í dag sagði Erlingur Richardsson landsliðsþjálfari Hollands að flug sem hann átti frá Hollandi til Íslands í dag hefði verið afbókað og hann biði í startholunum á Schiphol flugvelli í Amsterdam, tilbúinn að fara til Egyptalands. Miðað við fréttir Cabo Verde no Mundial lítur hins vegar út fyrir að Erlingur geti farið að undirbúa heimkomu til Íslands, þar sem Grænhöfðaeyjar ætli sér að spila á HM þrátt fyrir ástandið.