
Æ fleiri Repúblikanar vilja ákæra Trump
Cheney segir forsetann hafa kallað saman múginn sem réðst inn í þingið, og hvatt til áhlaupsins. Allt sem eftir fylgdi hafi verið af hans áeggjan, og ekkert af þessu hefði gerst ef Trump hefði ekki hvatt til þess, hefur Guardian eftir Cheney. Því ætli hún að greiða atkvæði með ákæru.
Mitch McConnell, leiðtogi meirihluta Repúblikana í öldungadeild þingsins, er sagður hlynntur ákæru. Í grein New York Times segir að McConnell hafi tjáð aðstoðarmönnum sínum að Trump hafi gerst brotlegur í embætti með því að hvetja stuðningsmenn sína til þess að fara inni í þinghúsið. Hann er sagður líta á þetta sem bestu leiðina til þess að bola Trump burt úr Repúblikanaflokknum.
Á morgun verða greidd atkvæði um hvort þingið ákæri Trump. Í nótt kemur í ljós hvort fulltrúadeildin samþykki tilskipun þar sem kallað verður eftir því að varaforsetinn Mike Pence virki 25. viðauka stjórnarskrárinnar og víki Trump úr embætti.
Málmleitarhlið við þingsal
Málmleitarhliði var komið fyrir við innganginn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Þegar eru slík hlið við alla innganga í þinghúsið en þingmenn fá yfirleitt að fara framhjá þeim. Yfirmaður öryggismála sendi þingmönnum tilkynningu um breytinguna fyrr í dag, og benti á að óheimilt væri að bera skotvopn í þingsal.
Faraldur í þinghúsinu?
Þrír þingmenn greindu frá því í kvöld að þær hefðu greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 eftir innrásina í þinghúsið. Þingmönnum var komið fyrir í öryggisherbergjum á meðan múgurinn æddi um húsið. Fréttastofa BBC segir sérfræðinga óttast að fleiri þingmenn eigi eftir að greinast með veiruna á næstu dögum. Þingkonan Bonnie Watson Coleman greindi frá því á Twitter í gær að hún hafi ákveðið að fara í sýnatöku eftir innrásina.
Following the events of Wednesday, including sheltering with several colleagues who refused to wear masks, I decided to take a Covid test.
I have tested positive.https://t.co/wivlbwrmV0
— Rep. Bonnie Watson Coleman (@RepBonnie) January 11, 2021
Hún hafi deilt öryggisherbergi með nokkrum samstarfsmönnum sem neituðu að bera grímu. Sýni hennar reyndist jákvætt, og hvatti hún þá sem voru með henni í herbergi að fara í sýnatöku.