Tveimur lögreglumönnum í lögregluliðinu á þinghúshæðinni í Washington hefur verið vikið frá störfum vegna gruns um aðild að árásinni á þinghúsið 6. janúar.
Einn hefur verið handtekinn vegna málsins að því er kemur í máli fulltrúadeildarþingmannsins Tim Ryan sem fer fyrir þingnefnd sem rannsakar viðbrögð lögreglu á Capitol-hæð.
CNN fréttastofan hefur eftir Ryan að annar lögreglumannana hafi tekið af sér sjálfsmynd með einhverjum úr hópi árásarfólksins og hinn vísaði mótmælendum veginn. Hann bar rauða húfu á höfðinu með áletruninni „Make America Great Again".
Ryan segir rannsókn standa yfir á atferli tíu til fimmtán lögreglumanna meðan á árásinni stóð án þess að fara nánar út í ástæður þess. Hann lét ekkert í ljósi varðandi þann sem handtekinn var.