Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útgönguhömlum aflétt í Brisbane

epa08927435 A women is seen walking her dog past a closed Streets Beach at South Bank in Brisbane, Australia, 09 January 2021. Residents of Greater Brisbane face mandatory lockdown over the weekend in a bid to contain the highly contagious UK variant of COVID-19.  EPA-EFE/DARREN ENGLAND AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Útgönguhömlum sem settar voru á í skyndi í borginni Brisbane í Ástralíu á föstudag hefur nú verið aflétt. AFP-fréttastofan greinir frá því að starfsmaður á hóteli í borginni greindist með hið nýja bráðsmitandi, svokallað breska afbrigði kórónuveirunnar á föstudag.

Það varð til þess að yfirvöld fyrirskipuðu öllum tveimur milljónum íbúa borgarinnar að halda sig heima yfir helgina. Tugir þúsunda kórónuveiruprófa voru tekin en enginn reyndist smitaður.

Annastacia Palaszczuk, forsætisráðherra Queensland-fylkis, segir viðbrögð yfirvalda ekki hafa verið of hörð, brugðist hafi verið skjótt og örugglega við til að draga úr mögulegri útbreiðslu hins nýja afbrigðis veirunnar.

Lífið í Brisbane hafði smám saman verið að færast í eðlilegt horf, en nú verður skylda að bera grímu innandyra og í almenningssamgöngum. Þær ráðstafanir gilda til 22. janúar, auk þess sem þrengt verður að fjölda gesta veitingastaða og öldurhúsa.

Yfirvöld í Ástralíu hafa einnig ákveðið að draga úr komum farþegaflugvéla til landsins og herða reglur um sóttkví.