„Ég kann allt og veit allt“

Mynd: Mummi Lú / RÚV

„Ég kann allt og veit allt“

11.01.2021 - 09:52
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, stýrir Íslandi í tólfta sinn á stórmóti á HM í Egyptalandi. Einar Örn Jónsson settist niður með Guðmundi á Ásvöllum eftir leikinn í gærkvöld og fékk að vita meira um HM, þjálfarann Guðmund Guðmundsson og hestamanninn Guðmund Guðmundsson.

„Við eigum auðvitað eftir að fara yfir þennan leik og nota þriðjudaginn og miðvikudaginn í að búa okkur undir næstu viðureign. Mánudagurinn [dagurinn í dag] fer allur í ferðalag. Langt ferðalag og strangt. Þannig við höfum kannski svona tvo daga í formlegan undirbúning fyrir HM. Það sem við höfum verið að glíma við núna var allt annað verkefni, en mjög mikilvægt engu að síður,“ sagði Guðmundur þegar hann var spurður hvort undirbúningi fyrir HM hefði lokið með 32-23 sigrinum á Portúgal í undankeppni EM 2022 á Ásvöllum í Hafnarfirði í gær.

En hvað hefur Guðmundur eytt löngum tíma síðustu daga og vikur í að horfa á Portúgal spila handbolta? „Það eru rosalega margar klukkustundir,“ sagði Guðmundur og hló. „Þetta eru rosalega margir leikir sem ég hef horft á. Ég kann allt og veit allt. En ég spila ekki. Samt sem áður hef ég nú náð að miðla miklu af þessum upplýsingum til leikmanna og þeir eru gríðarlega einbeittir og áhugsasamir og eru á tánum. Við erum auðvitað búnir að greina mikið og erum þekktir fyrir það. Við greinum kannski meira en margir aðrir og notum þessa tækni mikið,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur er nú á leið á HM í handbolta í sem þjálfari í sjötta sinn (stýrði Íslandi á HM 2003, 2011 og 2019 og Dönum á HM 2015 og 2017), og var að auki aðstoðarþjálfari Alfreð Gíslasonar með Ísland á HM 2007. En Guðmundur spilaði líka á nokkrum heimsmeistaramótum með Íslandi. Hver skyldi vera hans kærasta minning frá HM sem leikmaður?

Einsetti sér að skora úrslitamark

„Ég held að það hafi verið þegar ég tók þátt á HM 1986 í Sviss. Það hafði verið draumur minn frá því ég var ungur drengur, svona 8, 9 eða 10 ára að í fyrsta lagi verða landsliðsmaður og svo hafði ég líka einsett mér það að skora úrslitamarkið einhvern tímann. Það var markmið sem ég var með í undirmeðvitundinni. Svo skora ég úrslitamarkið á móti Rúmeníu. Við unnum þann leik 25-23. Þetta var mjög jafn leikur og staðan var 24-23 og ég skoraði þarna í lokin þegar það voru einhverjar fimm eða sjö sekúndur eftir. Ég hugsa að það sé svona eitt af þeim augnablikum með landsliðinu sem ég man mjög vel eftir. Svo tóku við fagnaðarlæti hjá mér sem ætluðu engan endi að taka.“

Guðmundur var þekktur fyrir það að fagna innilega sem leikmaður og gerir það svosem ennþá sem þjálfari. „Maður fór bara alla leið. Ég er ánægður með það í leiknum [við Portúgal] í dag, þó ég viti ekki hvort það sjáist á filmu, ég var ánægður með að sjá liðið hvað það var mikil leikgleði og grimmd og allir voru á fullu. Svona vil ég hafa þetta,“ sagði Guðmundur.

Ítarlegra viðtal við Guðmund, meðal annars um hestabakteríu hans og íslenska loftið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.